Nígeríski sóknarmaðurinn Victor Osimhen hefur loks sent frá sér yfirlýsingu eftir allt sem á hefur gengið hjá ítalska félaginu Napoli síðustu daga.
Nafn Osimhen hefur verið á forsíðum allra blaða á Ítalíu síðustu daga og vikur.
Hann lenti upp á kant við Rudi Garcia, þjálfara liðsins, eftir markalaust jafntefli gegn Bologna, en baðst síðan afsökunar á framferði sínu.
Búið var að stilla til friðar, en þá ákvað samfélagsmiðlastjóri Napoli að gera grín að Osimhen með tveimur myndböndum á TikTok, en í öðru þeirra er gert grín að vítaspyrnuklúðri hans og var þá hitt fremur skrítnara þar sem Osimhen og kókoshnetur komu fyrir.
Margir hafa komið Osimhen til varnar á samfélagsmiðlum og er talið að hann hafi nú fengið sig fullsaddann af lífinu í Napolí eftir þessa vanvirðingu, en miðað við yfirlýsinguna sem hann sendi frá sér í dag virðist þetta allt saman gleymt og grafið.
„Fyrir þremur árum tók ég þá dásamlegu ákvörðun að flytja til Napolí-borgar. Fólkið í Napolí hefur sýnt mér svo mikla ást og umhyggju og mun ég ekki leyfa neinum að komast á milli okkar.“
„Ástríðan í fólkinu gefur mér þennan neista og eldmóð að spila alltaf af öllu mínu hjarta og sál. Ást mín fyrir merkinu er óhagganleg og klæðist ég því með stolti.“
„Þessar ásakanir gegn fólkinu í Napolí eru ósannar. Ég á marga vini sem eru héðan og eru í dag stór hluti af fjölskyldu minni og hverdagslífi. Ég er þakklátur Nígeríubúum og öllum þeim sem hafa notað rödd sína til þess að styðja mig. Ég verð ævinlega þakklátur, en styðjum samheldni, virðingu og skilning. Áfram Napoli,“ sagði Osimhen.
Athugasemdir