Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   sun 02. ágúst 2020 11:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fimm leikmenn sem gera tilkall í kvennalandsliðið
Sveindís Jane Jónsdóttir, leikmaður Breiðabliks.
Sveindís Jane Jónsdóttir, leikmaður Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Áslaug Munda og Karólína Lea.
Áslaug Munda og Karólína Lea.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er langt um liðið síðan síðustu landsleikir fóru fram. Síðast lék kvennalandsliðið "alvöru" fótboltaleik í október á síðasta ári þegar liðið vann 6-0 útisigur á Lettlandi í undankeppni EM. Leikjum hefur verið frestað vegna kórónuveirunnar og á næsti leikur liðsins í undankeppninni að fara fram í september.

Þar sem það er svona langt frá síðasta leik þá ákvað undirritaður að taka saman lista yfir fimm leikmenn sem hafa verið að standa sig vel frá síðasta landsliðsverkefni og gera tilkall í næsta landsliðshóp sem verður valinn í næsta mánuði ef allt fer að óskum.

Þessir fimm leikmenn voru ekki í landsliðshópnum fyrir síðustu leikina í undankeppni EM í október síðastliðnum og til að gera þetta enn áhugaverðara, þá voru þessir leikmenn ekki heldur á æfingamótinu á Spáni í mars. Leikmennirnir eru í stafrófsröð.

Sjá einnig:
Fimm leikmenn sem gera tilkall í landsliðið

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir
Áslaug er á sínu þriðja tímabili með Breiðabliki eftir að hafa komið frá Völsungi fyrir tímabilið 2018. Hún er fjölhæfur leikmaður sem getur spilað miðju og kant, en hefur færst aftar á völlinn í bakvörðinn hjá Breiðabliki. Í fyrra var hún valin í lið ársins í Pepsi Max-deildinni og einnig var hún valin efnilegasti leikmaður deildarinnar. Byrjaði þetta tímabil í meiðslum en er að koma sterk til baka og var valin í lið 8. umferðar Pepsi Max-deildarinnar. Búin að spila tvo A-landsleiki en er aðeins 19 ára og því eiga þessir landsleikir eftir að verða margfalt fleiri í framtíðinni.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir
Liðsfélagi Áslaugar í Breiðabliki og (Höskuldarviðvörun) hún er ekki síðasti leikmaður Blika á þessum lista, enda besta lið landsins. Karólína verður 19 ára eftir tæpa viku og er fjölhæfur leikmaður sem getur spilað á miðju og á kanti. Hún á einn A-landsleik að baki og þeir verða fleiri í framtíðinni, án nokkurs vafa.

Kristín Dís Árnadóttir
Breiðablik hefur ekki enn fengið á sig mark í sumar og þar spilar Kristín Dís Árnadóttir risastórt hlutverk. Leikmaður sem hægt er að treysta á í hjarta varnarinnar og hún er með mikið sjálfstraust. Eftir bikarleik gegn Fylki á dögunum var hún spurð að því hversu lengi hún teldi að Breiðablik gæti haldið hreinu. Hún sagði: „Bara eins lengi og við viljum.". Er með mikla reynslu þrátt fyrir að vera aðeins tvítug en bíður enn eftir fyrsta A-landsleiknum. Hún var í lið ársins í Pepsi Max-deildinni í fyrra.

Lillý Rut Hlynsdóttir
Hún og Guðný Árnadóttir hafa myndað öflugt miðvarðarpar hjá Val. Lillý er með mikla reynslu í efstu deild og var í lykilhlutverki í Íslandsmeistaraliðum bæði Þórs/KA 2017 og Vals í fyrra. Hún er 23 ára gömul en hefur ekki enn spilað fyrir A-landsliðið sem er mjög athyglisvert.

Sveindís Jane Jónsdóttir
Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart. Sveindís tók skrefið úr Keflavík í Breiðablik fyrir þetta tímabil og það voru einhverjir sem voru í vafa um að hún gæti tekið byrjunarliðssæti hjá Blikum. Hún hefur heldur betur náð byrjunarliðssæti og gott betur en það. Hún hefur skorað sex mörk í fyrstu sjö leikjum Pepsi Max-deildarinnar í sumar og var valin best í fyrsta þriðjungi deildarinnar. Það er kominn tími á að Sveindís, sem er 19 ára, fái fyrsta A-landsleikinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner