Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 05. október 2021 13:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Siggi Bond riftir samningi við Þrótt - „Aldrei verið á betri stað í lífinu"
Mynd: Guðmann Rúnar Lúðvíksson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurður Gísli Bond Snorrason, Siggi Bond, hefur rift samningi sínum við Þrótt Vogum. Þetta staðfestir hann í samtali við Fótbolta.net í dag.

Siggi, sem er 26 ára kantmaður, hefur leikið með Þrótti síðustu tvö tímabil og fengið tilnefningu í lið ársins frá þjálfurum og fyrirliðum liðanna í deildinni bæði árin. Seinni hluta tímabilsins í ár glímdi Siggi við meiðsli sem takmörkuðu hans spilatíma.

Þróttur endaði í efsta sæti 2. deildar í haust og leikur því í næst efstu deild á komandi tímabili. En af hverju riftir Siggi samningi sínum?

„Mig langar að skoða aðra möguleika, ég hef aldrei verið á betri stað í lífinu, langar að breyta til og hafa allar dyr opnar," sagði Siggi, sem staddur er á Spáni, við Fótbolta.net í dag. „Ég vil þakka öllum hjá Þrótti og í Vogunum fyrir. Þetta var frábær tími hjá félaginu sem hefur gert mikið fyrir mig. "

Um helgina var greint frá því að Hermann Hreiðarsson verður ekki áfram hjá Þrótti og er tekinn við þjálfun ÍBV. Hefur sú þróun áhrif á þína ákvörðun? „Ég vildi auðvitað hafa Hemma áfram en mig langaði líka að prófa eitthvað nýtt."

Ertu að horfa í lið í Lengjudeildinni eða jafnvel í efstu deild? „Já bæði, mér finnst ég alveg geta spilað í efstu deild."

Kemur til greina að elta Hemma til Vestmannaeyja? „Það væri náttúrulega geggjað. Ég er náttúrulega að stofna fjölskyldu svo maður verður að sjá til hvort maður geti flutt úr bænum."

Siggi ætlar sér að vera í toppstandi komandi inn í næsta tímabil en hann er að byrja í einkaþjálfun hjá Guðmundi Kristjánssyni. „Ég ætla að koma mér í alvöru stand," sagði Siggi léttur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner