
Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður íslenska landsliðsins, ræddi við Fótbolta.net eftir 3-1 tapið gegn Lúxemborg í kvöld, en hann er vongóður um að liðið geti enn komið sér á EM.
Lestu um leikinn: Lúxemborg 3 - 1 Ísland
Markvörðurinn fékk á sig vítaspyrnu snemma leiks eftir að langur bolti heimamanna fékk að skoppa að teignum og fór Rúnar í Leandro Barreiro.
Alls konar mistök kostuðu Ísland í dag en Rúnar var svekktur í leikslok.
„Svekktur bara og leikur sem við vildum vinna. Súrt að tapa honum og hvernig við töpuðum honum,“ sagði Rúnar, sem talaði aðeins um vítaspyrnuna.
„Atvik sem við dílum illa við. Boltinn í vandræðum og skoppar, eigum að koma honum burt fyrr. Ég veit ekki hvort ég eigi að gera árás á boltann eða droppa niður á línu, en býst við að boltinn skjótist áfram á blautu grasi og endi í höndunum á mér. Hann nær að skalla hann, en fannst þetta 'soft' víti. Við sem heild eigum að gera betur og mest ábyrgð á mér sem er allt í lagi.“
„Bjóst ekki við að hann myndi ná boltanum á undan mér. Þetta var ekki nógu gott og þetta var ömurlegt að vera 1-0 undir í svona langan tíma, við þurfum að sækja og verðum opnari til baka fyrir vikið. Mér fannst við spila fínt á stórum köflum í dag og sköpuðum slatta af færum. Þetta var súrt að tapa leik 3-1 sem hefði getað endað 0-1. Ef við hittum á daginn okkar þá fáum við ekki nein mörk á okkur og lokum þessu,“ sagði Rúnar sem sagði dómgæsluna vera aðeins gegn Íslandi.
„Já, mér fannst það, en það er ekki dómaranum að kenna að við töpuðum í dag, bara engan veginn.“
Hann segir jafnframt að Ísland eigi ekki að tapa á móti Lúxemborg en vildi þó ekki taka neitt af liðinu.
„Ósköp lítið. Við eigum ekki að tapa á móti Lúxemborg, en þeir eru með gullkynslóðina sína núna eins og við fyrir sex, sjö eða átta árum. Það má ekkert taka af þeim en að sama skapi aulaleg mistök sem kosta okkur leikinn. Við þurfum að útrýma þeim og þá lítur þetta ágætlega út hjá okkur,“ sagði Rúnar sem neyddist til að fara í lyfjapróf eftir leikinn og missti því af því sem var sagt inni í klefa.
„Ég veit það ekki. Ég fór í lyfjapróf og veit ekkert hvað átti sér stað og þarf bara að fá að ræða við liðsfélaga mína og þjálfarateymið upp á hóteli.“
Ísland á lítinn möguleika á að tryggja sér sæti á EM í riðlinum en það er enn von í gegnum Þjóðadeildina.
„Já, það er enn möguleiki en við þurfum að ná fimmtán stigum í næstu fimm leikjum. Við reynum bara að nýta þessa leiki til að undirbúa okkur vonandi í umspilsleiki í gegnum Þjóðadeildina og vera klárir þegar við fáum það tækifæri vonandi,“ sagði hann enn fremur.
Athugasemdir