Víkingar tóku á móti Shamrock Rovers í 1.umferð forkeppni Meistaradeildarinnar í kvöld.
Víkingar byrjuðu einvígið á heimavelli og þrátt fyrir að liggja svolítið á gestunum vildi markið ekki láta sjá sig.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 0 - 0 Shamrock Rovers
„Svekkjandi. Mér fannst við eiga miklu meira skilið úr þessu en svona er fótboltinn stundum." Sagði Danijel Dejan Djuric leikmaður Víkinga eftir leikinn í kvöld.
„Mér fannst þeir bara koma hingað til þess að pakka í vörn. Þeir voru ekkert að spila neinn tiki-taka fótbolta. Þeir komu hingað bara til þess að fá 0-0 eða 1-1. Þeir voru bara að reyna fara með úrslit tilbaka og þeir gerðu það. Við áttum að vera betri, það er bara þannig."
Shamrock Rovers lágu töluvert tilbaka og voru virkilega þéttir fyrir. Danijel Djuric segir að Víkingar hafi alveg verið viðbúnir því.
„Jájá, við vorum það en við áttum bara að nýta þetta aðeins betur. Þetta vantaði bara aðeins meiri gæði fannst mér."
Víkingar réðu lögum og lofum í leiknum og var virkilega svekkjandi að ná ekki inn allavega einu marki.
„Það er ógeðslega svekkjandi. Það er svo erfitt þegar það er múrað fyrir markið og maður er að reyna opna glufur og reyna gera glufur en það virkar bara ekki. Þetta var ekki skemmtilegasti leikurinn fannst mér."
Víkingar ná ekki að skora mark í kvöld sem gerir einvígið ögn flóknara og erfiðara fyrir seinni leikinn.
„Miklu erfiðara. Við ætluðum að koma hingað og spila sóknarsinnaðan bolta og skora svona 2-3 en það bara virkaði ekki og stundum er fótboltinn bara þannig og við þurfum að bíta í það súra núna."
Nánar er rætt við Danijel Dejan Djuric í spilaranum hér fyrir ofan.