
„Ég er sáttur með margt í leiknum," sagði Halldór Jón Sigurðsson, Donni, þjálfari Þórs/KA eftir 2-1 tap gegn Val í Lengjubikar kvenna í dag.
„Við hefðum geta komist hérna yfir í seinni ein á móti markmanni en vissulega fengu þær líka svolítið af færum. Þær voru með landsliðskonur á bekknum á meðan við vorum með tvær úr yngra ári í þriðja flokki sem komu inná. Það er töluverður munur á breiddinni og stelpurnar mínar voru orðnar þreyttar."
Donni sagði að Þór/KA hafi vantað 2-3 leikmenn sem eru meiddir og þá væru tvær í Bandaríkjunum og ein í Austurríki svo hann er bjartsýnn á sumarið með breiðari hóp. En ætlar hann að styrkja liðið frekar?
„Hópurinn er klár, við erum með þrjá erlenda leikmenn og ég er mjög ánægður með hópinn. Við missum sex byrjunarliðsmenn frá í fyrra og fengum þrjá í staðinn. Svo erum við með mjög góða leikmenn sem við ætlum að gefa tækifæri í sumar. Það er gaman að geta gefið þeim séns en við slökum ekkert á í okkar markmiðum. Þór/KA er stórveldi í kvennaknattspyrnu og við ætlum að halda áfram og byggja ofan á það sem við getum gert," sagði Donni.
Nánar er rætt við hann í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir