FH-ingar heimsóttu Stjörnuna í Garðabæ á Samsungvellinum í kvöld. Stjörnumenn höfðu fram að þessum leik verið á mikilli sigurgöngu en FH tókst að stöðva hana í kvöld. Liðin skildu að með markalausu jafntefli eftir annars fínan fótboltaleik. Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var nokkuð sáttur við frammistöðu sinna manna og fannst jafntefli vera sanngjörn niðurstaða.
„Þetta var sanngjarnt, samt sem áður fannst mér við vera með ágætis tök á þessum fyrri hálfleik og vandræðin í seinni hálfleik voru þau að við misstum þennan leik í 'transition leik' og Stjörnumenn eru góðir þar. En við náðum og laga það og mér fannst við eiga möguleika. Bjarni (Guðjón Brynjólfsson) fékk gott skallafæri í seinni hálfleik og ef það er einhver sem ég vil að fái svona færi, að þá er það Bjarni fyrir utan Björn Daníel."
Lestu um leikinn: Stjarnan 0 - 0 FH
Stjörnumenn voru á sex leikja sigurgöngu og því tíðindi að FH-ingar hafi komið á heimavöll þeirra og náð í stig á móti heitasta liði landsins.
„VIð þurftum auðvitað bara að berjast, eins og ég hef sagt með Stjörnuna. Þeir eru góðir í 'transition' og þeir eru góðir að finna Andra Rúnar sem uppspilspunkt og vinna í kring. Við náðum að leysa það ágætlega og náðum að loka helstu styrkleika þeirra en við hefðum oft mátt vera kaldari á boltanum."
FH-ingar taka á móti Breiðabliki á Kaplakrikavelli í næstu umferð en þeir eru að berjast við Breiðablik um fjórða sætið og væri því sterkt fyrir FH að fara með sigur af hólmi í þeim leik.
„Það leggst bara vel í mig, eins og allir leikir. Blikar eru auðvitað komnir með bakið upp við vegg og þurfa að fá sigra, ef þeir ætla að koma sér í Evrópukeppni, þannig að það verður erfiður leikur. Mannvalið hjá Breiðablik er auðvitað fáránlega gott."
Viðtalið má finna í spilaranum að ofan.