
„Þeir voru mjög góðir og við vorum ekki frábærir heldur," sagði Arnór Ingvi Traustason leikmaður íslenska landsliðsins eftir tapið gegn Hollandi í vináttulandsleik í kvöld.
Lestu um leikinn: Holland 4 - 0 Ísland
„Við komum inn í leikinn með það í huga að við vildum gera svipaða hluti og við gerðum á móti Englandi. Mér fannst við byrja þokkalega í fyrri hálfleik fram að fyrsta markinu. Þeir skapa helling af færum sem var algjör óþarfi, við getum komið í veg fyrir einhver mörk."
„Þessi leikur á móti Englandi var frábær og allt það en við getum ekki komið tveimur dögum seinna og látið gersamlega rústa okkur. Við þurfum samt að taka eitthvað jákvætt út úr þessu en það er ekki gaman að tapa 4-0," sagði Arnór Ingvi.
Næsta verkefni íslenska landsliðsins er Þjóðadeildin í september.
„Hausinn okkar allra er við Þjóðadeildina og gera vel í þeim riðli. Við getum tekið margt jákvætt út úr þessu, við erum með sjálfstraust þó svo að það fór eins og það fór í dag. Margt jákvætt sem við getum horft á og Þjóðadeildin verður skemmtileg," sagði Arnór Ingvi að lokum.