fös 10. júlí 2020 10:17
Magnús Már Einarsson
Rúrik gæti hætt í fótbolta
Rúrik Gíslason.
Rúrik Gíslason.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Rúrik Gíslason gæti mögulega verið búinn að leggja skóna á hilluna en þetta segir hann í viðtali við Brennsluna á FM957 í dag.

Rúrik komst að samkomulagi um starfslok hjá Sandhausen í Þýskalandi á dögunum eftir deilur um laun eftir að kórónaveirufaraldurinn kom upp. Rúrik stóð í deilunum á sama tíma og mamma hans var að glíma við erfið veikindi en hún lést í apríl síðastliðnum.

Í viðtali í Brennslunni ræddi Rúrik deilurnar um launin eins og lesa má á Vísi.

Hinn 32 ára gamli Rúrik er félagslaus en hann hefur fengið fyrirspurnir frá félögum úr Pepsi Max-deildinni.

„Það hefur alveg gerst en ég hef tekið þann pól í hæðina að vera bara með fjölskyldunni og taka mér smá frí. Mér fannst það mikilvægt. Það hafa lið haft samband,“ sagði Rúrik í Brennslunni en hefur hann áhuga á að spila hér heima?

„Eins og staðan er í dag þá kannski ekki en það getur alltaf breyst. Ég veit ekkert á hverju þessi ákvörðun er byggð hjá mér. Ég vildi bara koma heim og njóta lífsins."

Rúrik var spurður að því hvort hann sé hættur í fótbolta. „Það fer eftir því hvað kemur upp. Núna ertu að reyna ná fyrirsögn frá mér. Ég er ekki fæddur í gær,“ sagði Rúrik og hló.

„Ég vildi gæti svarað þessu og þú ert ekki sá eini sem spyrð. Mér finnst gaman í fótbolta og áhuginn er til staðar og metnaðurinn. Við sjáum hvað gerist. Ef ekkert spennandi kemur upp þá verður maður að fara gera eitthvað annað - og það er svo sem alveg verkefni á borðinu sem bíða ef fótboltinn fái stígvélið frá mér.“
Athugasemdir
banner
banner
banner