Arsenal og Chelsea vilja Isak - Þrír orðaðir við Liverpool - Potter orðaður við Wolves og West Ham
banner
   sun 10. nóvember 2024 22:25
Elvar Geir Magnússon
Staðan á strákunum okkar - Menn í stórum hlutverkum
Icelandair
Stór félagslið fylgjast með Loga Tómassyni.
Stór félagslið fylgjast með Loga Tómassyni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Einar Gunnarsson er í hópnum.
Aron Einar Gunnarsson er í hópnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Bergmann Jóhannesson.
Ísak Bergmann Jóhannesson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stefán Teitur Þórðarson.
Stefán Teitur Þórðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mikael Egill Ellertsson.
Mikael Egill Ellertsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Willum Þór Willumsson.
Willum Þór Willumsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Orri Steinn Óskarsson.
Orri Steinn Óskarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Komið er að landsleikjaglugga þar sem Ísland mætir Svartfjallalandi og Wales á útivöllum í síðustu leikjum okkar liðs í riðli Þjóðadeildarinnar. Leikið verður gegn Svartfellingum næsta laugardag.

Svartfellingar eru á botni riðilsins en við Íslendingar erum í þriðja sæti, sem er umspilssæti um að halda sæti sínu í B-deildinni.

Fótbolti.net tekur hér saman stöðuna á leikmönnum íslenska landsliðsins en tvær breytingar voru gerðar á hópnum um helgina. Daníel Leó Grétarsson og Kolbeinn Birgir Finnsson drógu sig úr hópnum vegna meiðsla og inn komu Dagur Dan Þórhallsson og Hlynur Freyr Karlsson.

Hákon Rafn Valdimarsson (23) - Brentford- 15 leikir
Aðalmarkvörður íslenska landsliðsins hefur ekkert spilað síðan í síðasta landsleikjaglugga. Er varamarkvörður enska úrvalsdeildarliðsins Brentford og það voru vonbrigði að hann var ekki notaður í deildabikarleiknum gegn Sheffield Wednesday eftir að hann hafði spilað fyrstu tvo leiki liðsins í keppninni.

Elías Rafn Ólafsson (24) - Midtjylland - 6 leikir
Aðalmarkvörður danska meistaraliðsins. Midtjylland er í Evrópudeildinni og situr þar í umspilssæti. Elías varði eins og berserkur um helgina en liðið tapaði þó 1-0 gegn Viborg. Midtjylland, FCK og AGF eru jöfn að stigum á toppi deildarinnar.

Lúkas Petersson (20) - Hoffenheim
Tvítugur og kallaður upp úr U21 landsliðinu vegna meiðsla Patriks Gunnarssonar. Lúkas leikur með varaliði þýska úrvalsdeildarliðsins Hoffenheim sem spilar í þýsku D-deildinni.

Dagur Dan Þórhallsson (24) - Orlando City - 5 leikir
Kallaður upp í landsliðið. Hefur fest sig í sessi sem lykilmaður í hægri bakverði hjá Orlando City sem er komið áfram í úrslitakeppni bandarísku MLS-deildarinnar.

Logi Tómasson (24) - Strömsgodset - 6 leikir, 1 mark
Spilar sem vængbakvörður hjá norska liðinu og er fastamaður í liðinu sem situr í níunda sæti deildarinnar. Hefur skorað sex mörk og lagt upp fjögur og er undir smásjám hjá liðum í stórum deildum í Evrópu.

Hlynur Freyr Karlsson (20) - Brommapojkarna - 1 leikur
Kallaður upp í hópinn. Fastamaður í hjarta varnarinnar hjá sænska úrvalsdeildarfélaginu sem hafnaði í tíunda sæti. Lagði upp mark í 2-1 tapi gegn Malmö í lokaumferðinni.

Aron Einar Gunnarsson (35) - Al-Gharafa - 103 leikir, 5 mörk
Hareide hefur staðfest að Aron sé hugsaður sem miðvörður í þessu verkefni. Aron hefur byrjað alla leiki katarska liðsins
Al-Gharafa í Meistaradeild Asíu sem varnartengiliður.

Guðlaugur Victor Pálsson (33) - Plymouth - 45 leikir, 2 mörk
Hefur byrjað fjóra af fimmtán leikjum Plymouth í Championship-deildinni. Komið inn af bekknum í blálokin í síðustu tveimur leikjum liðsins. Plymouth situr í átjánda sæti.

Sverrir Ingi Ingason (31) - Panathinaikos - 53 leikir, 3 mörk
Þessi lykilmaður landsliðsins er fastamaður í hjarta varnar gríska liðsins. Hann lék allan leikinn í kvöld þegar Panathinaikos vann 1-0 sigur gegn Lamia og komst upp í fimmta sæti.

Valgeir Lunddal Friðriksson (23) - Düsseldorf - 13 leikir
Er á sínu fyrsta tímabili með þýska B-deildarliðinu. Var í byrjunarliðinu gegn Paderborn um helgina sem hægri bakvörður. Liðið er í fjórða sæti í deildinni.

Alfons Sampsted (26) - Birmingham - 22 leikir
Komið við sögu í átta leikjum með Birmingham í ensku C-deildinni en ekki enn byrjað leik fyrir liðið í deildinni. Spilaði sextán mínútur gegn Northampton um helgina. Birmingham er í öðru sæti.

Ísak Bergmann Jóhannesson (21) - Düsseldorf - 29 leikir, 3 mörk
Byrjar alla leiki þýska B-deildarliðsins og er lykilmaður á miðsvæðinu. Kominn með tvö mörk og þrjár stoðsendingar á tímabilinu.

Júlíus Magnússon (26) - Fredrikstad - 5 leikir
Fyrirliði Fredrikstad sem er í sjötta sæti norsku deildarinnar. Er í lykilhlutverki sem varnartengiliður.

Arnór Ingvi Traustason (31) - Norrköping - 61 leikur, 6 mörk
Varafyrirliði og lykilmaður á miðju Norrköping. Liðið er í tólfta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar og Arnór er með sex mörk og eina stoðsendingu.

Stefán Teitur Þórðarson (26) - Preston - 23 leikir, 1 mark
Spilaði seinni hálfleikinn í tapi gegn Portsmouth í Championship-deildinni um helgina. Hefur spilað ellefu leiki í deildinni, þar af sex sem byrjunarliðsmaður en Preston er í 20. sæti.

Jón Dagur Þorsteinsson (25) - Hertha Berlín - 40 leikir, 6 mörk
Hefur spilað alla leiki leiki Herthu í þýsku B-deildinni síðan hann gekk í raðir félagsins. Hann var í byrjunarliðinu í tapi gegn Darmstadt um helgina en Hertha fer ekki nægilega vel af stað og er í ellefta sæti.

Mikael Egill Ellertsson (22) - Venezia - 17 leikir, 1 mark
Spilað ellefu leiki með Venezia í ítölsku A-deildinni, er með eitt mark og eina stoðsendingu fyrir liðið. Hefur verið byrjunarliðsmaður í flestum leikjunum en Venezia situr í neðsta sæti.

Jóhann Berg Guðmundsson (34) - Al-Orobah - 97 leikir, 8 mörk
Spilar alla leiki Al-Orobah í Sádi-Arabíu frá upphafi til enda. Hefur skorað tvö mörk og átt eina stoðsendingu. Liðið er í þrettánda sæti af átján liðum.

Mikael Anderson (26) - AGF - 31 leikur, 2 mörk
Var í byrjunarliði AGF sem gerði 1-1 jafntefli gegn FC Kaupmannahöfn í toppslag í dag. Mikael er með tvö mörk og fjórar stoðsendingar í fjórtán leikjum í dönsku úrvalsdeildinni.

Willum Þór Willumsson (26) - Birmingham - 13 leikir
Hefur fengið mikið lof fyrir frammistöðu sína með Birmingham en hann á fast sæti í byrjunarliðinu. Er kominn með fimm mörk og sjö stoðsendingar í fjórtán leikjum á tímabilinu í deild og FA-bikarnum.

Brynjólfur Willumsson (24) - Groningen - 2 leikir, 1 mark
Með tvö mörk í níu leikjum í hollensku úrvalsdeildinni en hann er oftast notaður sem varamaður hjá Groningen.

Andri Lucas Guðjohnsen (22) - Gent - 28 leikir, 7 mörk
Er með tvö mörk og eina stoðsendingu í þrettán leikjum fyrir Gent í belgísku deildinni, þá er hann með eina stoðsendingu í þremur leikjum í Sambandsdeildinni. Hann kom inn sem varamaður seint í 5-0 sigri gegn Standard Liege um helgina.

Orri Steinn Óskarsson (20) - Real Sociedad - 12 leikir, 4 mörk
Er kominn með tvö mörk í La Liga og eitt í Evrópudeildinni. Er að ganga vel að vinna sig inn í sterka deild og kom öflugur af bekknum í mögnuðum 1-0 sigri Real Sociedad gegn Barcelona í kvöld og skapaði usla fyrir varnarmenn Börsunga.

Sævar Atli Magnússon (24) - Lyngby - 5 leikir
Skoraði um helgina í 2-2 jafntefli gegn Álaborg í dönsku úrvalsdeildinni og er með tvö mörk og eina stoðsendingu í fimmtán leikjum. Lyngby er í næstneðsta sæti deildarinnar.
Landslið karla - Þjóðadeild
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Wales 6 3 3 0 9 - 4 +5 12
2.    Tyrkland 6 3 2 1 9 - 6 +3 11
3.    Ísland 6 2 1 3 10 - 13 -3 7
4.    Svartfjallaland 6 1 0 5 4 - 9 -5 3
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner