Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 14. júní 2020 09:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Valgeir þótti of grófur fyrir 8. flokk: Verið svona alla ævi
Valgeir Valgeirsson er hress.
Valgeir Valgeirsson er hress.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Þór Viðarsson.
Davíð Þór Viðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valgeir Valgeirsson sló í gegn í Pepsi Max-deildinni síðasta sumar er hann skaust fram á sjónarsviðið með HK. Valgeir verður 18 ára í september og er hann mjög efnilegur.

Valgeir er óhræddur við að láta finna fyrir sér og pirra andstæðinginn þrátt fyrir að vera ungur að árum og ekki sá hávaxnasti í geiranum, en Valgeir getur bæði leikið sem kantmaður og bakvörður hægra megin á vellinum.

Hann var gestur í Niðurtalningunni hér á Fótbolta.net í síðustu viku þar sem hann sagði skemmtilega sögu af sér frá því í 8. flokki.

„Frá því í 8. flokki hef ég verið lítill strákur en samt með mikinn kraft og reiði inn á vellinum. Í 8. flokki fór ég á mót upp á Akranesi og ég var greinilega of grófur. Foreldrar krakka í hinu liðinu voru orðnir það brjálaðir út í mig að það þurfti að taka mig út úr liðinu. Ég var færður upp um flokk því ég þótti of grófur fyrir 8. flokkinn," sagði Valgeir sem er með mikið skap.

„Maður er búinn að vera svona alla sína ævi. Ég er líka með skap á æfingum og maður fer oft í rifrildi, þetta hefur alltaf fylgt mér. Stór ástæða fyrir því að ég hef náð svona langt er skapið sem ég hef. Það er mjög mikilvægt að hafa svona skap."

„Í yngri flokkunum fékk ég eiginlega spjald í hverjum einasta leik. Við vorum einu sinni að keppa í undanúrslit í bikar og ég ákvað að kasta boltanum yfir grindverk, fékk gult spjald fyrir það og var í banni í úrslitaleiknum. Það var alveg hræðilegt," segir Valgeir sem segist jafnframt að hafa lært af slíkum kjánaskap.

Háði einvígi við Davíð Þór Viðarsson
Það vakti athygli í fyrra þegar Valgeir háði baráttu við Davíð Þór Viðarsson, þá fyrirliða FH og reynslubolta, í leik liðanna í Kórnum í fyrra. Valgeir gaf Davíð ekkert eftir og lét finna fyrir sér í leiknum.

„Það var ógeðslega skemmtilegt. Maður vissi alveg hver hann var fyrir leikinn, algjör goðsögn hjá FH. Ég hef virkilega gaman að því að vera í einvígum við menn," sagði Valgeir.

„Ég þekki líka Davíð Þór Viðarsson því við vorum saman í líkamsrækt hjá Spörtu. Hann hefur hjálpað mér mikið með fótboltann og er frábær náungi."

HK leikur sinn fyrsta leik í Pepsi Max-deildinni í kvöld þegar liðið tekur á móti FH í Kórnum.

Hér að neðan má hlusta á viðtalið við Valgeir í Niðurtalningunni.
Niðurtalningin - Valgeir Valgeirs í skemmtilegu spjalli
Athugasemdir
banner
banner