
Agla María Albertsdóttir er komin aftur í landsliðshópinn eftir langa fjarveru. Hún var síðast í hópnum undir lok árs 2023.
Agla María gaf ekki kost á sér í byrjun árs í fyrra og svo sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, í maí á síðasta ári að hann hefði bara ekki valið hana.
Agla María gaf ekki kost á sér í byrjun árs í fyrra og svo sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, í maí á síðasta ári að hann hefði bara ekki valið hana.
En núna er hún komin aftur og er í síðasta hópnum áður en sjálfur EM-hópurinn verður valinn.
„Hún er bara klár í þetta og full tilhlökkunar að koma inn aftur. Það er í sjálfu sér ekkert meira um það að segja sem slíkt," sagði landsliðsþjálfarinn er hann var spurður út í Öglu Maríu á fréttamannafundi í dag.
Agla María er fyrirliði Breiðabliks og einn besti sóknarleikmaður Bestu deildarinnar. Með tilkomu hennar verði meiri möguleikar sóknarlega, sem kannski skorti í síðasta verkefni.
„Mér líst bara vel á stöðuna fremst á vellinum, við erum í ágætis málum. Við getum talað um síðasta verkefni en það er sennilega sjaldan þar sem við höfum skapað okkur jafnmikið af færum. Við skoruðum þrjú mörk í seinni leiknum og sóknarleikurinn var að mörgu leyti ágætur. Ég er bjartsýnn á að þessir leikmenn geti skorað í næstu tveimur leikjum og þær munu gera það. Agla María kemur með ákveðna reynslu inn í það og það eru fleiri möguleikar núna. Út af leikbönnum valdi ég fleiri miðjumenn í síðasta verkefni. Ég bæti sóknarmanni inn við núna fyrir miðjumann og það eykur breiddina varðandi leikstöðurnar fram á við," sagði Þorsteinn.
Berglind færist nær hópnum
Það er engin hreinræktuð nía í hópnum en Bryndís Arna Níelsdóttir og Ólöf Sigríður Kristinsdóttir eru báðar meiddar og missa af EM. Berglind Björg Þorvaldsdóttir, sem er með mikla landsliðsreynslu, er komin aftur á fullt af barnsburð og er þessa stundina markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar. Þorsteinn var spurður að því á fundinum hvort hún sé að færast nær hópnum.
„Auðvitað færistu alltaf nær þegar vel gengur og þú ert að spila vel. Það segir sig sjálft," sagði Þorsteinn við því.
Athugasemdir