Risatilboði Chelsea hafnað - Tekur Nuno við West Ham? - Tveir á blaði United - Ungur miðvörður til Arsenal?
   mán 15. september 2025 20:49
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalía: Vardy kom við sögu í jafntefli - Mikael byrjaði
Mynd: EPA
Mynd: Genoa
Það fóru tveir leikir fram í efstu deild ítalska boltans í dag, þar sem Verona og Como áttu heimaleiki.

Verona tók fyrst á móti nýliðum Cremonese í áhugaverðum slag þar sem heimamenn voru talsvert sterkari aðilinn.

Giovane fór fremstur í flokki þar sem hann var afar líflegur en tókst ekki að klára neitt færi með marki. Emil Audero átti stórleik á milli stanganna þar sem hann varði allar níu marktilraunir sem hæfðu rammann.

Lokatölur urðu 0-0 þrátt fyrir yfirburði Verona, sem er með tvö stig eftir þrjár fyrstu umferðirnar á tímabilinu. Cremonese hefur farið gífurlega vel af stað og er með sjö stig eftir þetta jafntefli.

Jamie Vardy byrjaði á bekknum og var skipt inn á 58. mínútu í liði Cremonese.

Como tók þá á móti Genoa og tók forystuna í fyrri hálfleik með glæsimarki frá Nico Páz eftir sendingu frá Álvaro Morata.

Leikurinn var jafn og skemmtilegur þar sem bæði lið komust í góðar stöður og fengu flott færi. Genoa varð sterkari aðilinn þegar tók að líða á seinni hálfleikinn en náði ekki að skora. Mikael Egill Ellertsson var í byrjunarliði Genoa og spilaði fyrstu 70 mínúturnar.

Varnarmaðurinn ungi Jacobo Ramón, sem Como fékk úr röðum Real Madrid í sumar, var í byrjunarliðinu og fékk beint rautt spjald á 89. mínútu fyrir heldur litlar sakir.

Verandi leikmanni fleiri tókst Genoa að refsa með marki þegar varamaðurinn Caleb Ekuban skoraði eftir mikinn atgang í vítateignum, þar sem varnarmaður Como tæklaði boltann meðal annars í stöngina áður en hann barst til Ekuban.

Genoa fékk annað færi til að skora í uppbótartímanum en tókst ekki svo lokatölur urðu 1-1.

Como er með fjögur stig eftir þrjár umferðir. Genoa er með tvö stig.

Verona 0 - 0 Cremonese

Como 1 - 1 Genoa
1-0 Nico Paz ('13 )
1-1 Caleb Ekuban ('92)
Athugasemdir
banner