„Tilfinningin er frábær. Við erum búnir að bíða lengi eftir þessu að ná að tengja saman tvo sigra. Við höfum gert þau mistök áður í sumar að fara aðeins of hátt þegar að við vinnum leiki og kannski sokkið svolítið djúpt þegar við erum að tapa.“ Voru fyrstu orð Viktors Jónssonar leikmanns ÍA um tilfinninguna eftir 3-1 sigur ÍA á Aftureldingu fyrr í kvöld en með sigrinum lyftI ÍA sér af botni deildarinnar. Viktor hélt áfram.
Lestu um leikinn: ÍA 3 - 1 Afturelding
„Það var náttúrulega orðið erfitt að tapa en við náðum að halda okkur vel á jörðinni eftir síðasta leik og það var bara fullur fókus eftir leikinn gegn Breiðablik á að taka þennan líka.“
Skagamenn byrjuðu leikinn þó ekkert alltof vel í dag og sóttu gestirnir nokkuð í upphafi. Það voru þó Skagamenn sem skoruðu fyrsta mark leiksins. Um leikinn sagði Viktor.
„Við byrjuðum leikinn illa og fannst mér við vera skrefi á eftir þeim. Þeir eru vel spilandi lið og gott flæði í þeim og við vorum að lenda svolítið eftir á. Mér fannst við samt ekkert í neinu brjáluðu veseni. Við þurftum bara aðeins að stíga á bensíngjöfina og hækka orkustigið.“
Ómar Björn Stefánsson átti aftur góðan leik i liði ÍA en hann leikur í framlínu liðsins líkt og Viktor. Viktor var alveg til í að hrósa liðsfélaga sínum fyrir leikinn og þá vinnu sem hann leggur á sig.
„Ég tók eftir því strax í vetur þegar hann kom hvað býr í þessum gæja og maður er bara búinn að bíða eftir því að þetta fari að tikka hjá honum. Hann leggur gríðarlega vinnu á sig í hverjum einasta leik og á æfingarsvæðinu líka. Hann er oft eftir hérna á æfingu í klukkutíma að æfa aukalega. Ég hef margt oft sagt við hann að vinnusemi borgar sig og að halda dampi. Það mun alltaf skila sér á endanum.“
Sagði Viktor en allt viðtalið við hann má sjá hér að ofan.
Athugasemdir