
„Tilfinning er náttúrulega út um allt. Þetta var þvílíkur rússíbani,“ sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, eftir 6-3 sigur gegn Þrótti í sjöundu umferð Lengjudeild karla í kvöld.
Lestu um leikinn: ÍA 6 - 3 Þróttur R.
Leikurinn í kvöld var vægast sagt fjörugur. Skagamenn komust yfir á 20. mínútu eftir mark frá Viktori Jónssyni. Þróttur svaraði því hins vegar og voru 2-1 yfir þegar flautað var til hálfleiks.
„Við byrjuðum þennan leik frábærlega og komumst verskuldað yfir. Síðan gefum við þeim leið inn í leikinn eftir það. Klaufalegt mark í stöðunni 1-1 og það sló okkur út af laginu allt of mikið.“
Jón Þór fór yfir það hver skilaboðin höfðu verið í hálfleiknum eftir fyrri hálfleikinn.
„Nú snerist þetta um karakter og að menn þyrftu að stíga upp úr. Menn voru soldið að vorkenna sér í þeirri stöðu að lenda 2-1 undir. Við vorum komnir í soldið þannig gír að vorkenna okkur og ákvarðanir dómara fóru í taugarnar á okkur.“
ÍA náði sínum fyrsta sigri á heimavelli í kvöld sem var mikið gleðiefni að sögn Jóns.
„Við vorum staðráðnir í að breyta því og það er auðvitað gleðiefni að hafa gert það. Árangurinn á heimavelli hefur ekki verið nægilega góður undanfarinn ár og við viljum breyta því.“
Viðtalið má sjá í heild sinni hér að ofan.