Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fös 18. nóvember 2022 09:00
Elvar Geir Magnússon
2 dagar í HM - HM í Brasilíu 2014
Fótboltaveisla í Brasilíu
Mario Götze skoraði sigurmark úrslitaleiks HM 2014.
Mario Götze skoraði sigurmark úrslitaleiks HM 2014.
Mynd: Getty Images
Suarez beit Chiellini.
Suarez beit Chiellini.
Mynd: Getty Images
Van Persie skorar yfir Casillas.
Van Persie skorar yfir Casillas.
Mynd: Getty Images
Miroslav Klose.
Miroslav Klose.
Mynd: Getty Images
Neymar meiddist og gat ekki spilað í undanúrslitum.
Neymar meiddist og gat ekki spilað í undanúrslitum.
Mynd: Getty Images
James Rodriguez.
James Rodriguez.
Mynd: Getty Images
Í tilefni þess að HM í Katar hefst 20. nóvember, 21. Heimsmeistaramótið í fótbolta, rifjar Fótbolti.net upp liðin mót. Leikmennirnir, sigurvegararnir, heimalandið, eftirminnilegir atburðir og fleira í brennidepli.

Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður á sunnudag milli Katar og Ekvador.



HM í Brasilíu 2014
Það var mikil rómantík yfir því þegar stærsta mót heimsfótboltans var aftur haldið í Brasilíu. Mótið olli heldur engum vonbrigðum og margir sem nefna það í hópi bestu heimsmeistaramóta sögunnar. Allar þær þjóðir sem höfðu orðið heimsmeistari voru með á mótinu; Argentína, Brasilía, England, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Spánn og Úrúgvæ. Bosnía og Hersegóvína var með í fyrsta sinn en norðurlandaþjóðirnar áttu engan fulltrúa. Sóknarleikur var ríkjandi á mótinu og allar 32 þátttökuþjóðirnar skoruðu.

Marklínutækni og vatnshlé
Til að forðast það að „draugamörk" yrðu skoruð á mótinu var marklínutækni notuð í fyrsta sinn á HM. Dómaraspreyið var einnig notað og dómarar merktu hvar aukaspyrnur og varnarveggir ættu að vera með froðu. Þá var dómurum heimilt að taka vatnspásu í hvorum hálfleik ef hitinn fór yfir 32 gráður. Fyrsta vatnspásan á HM fór fram í viðureign Hollands og Mexíkó í 16-liða úrslitum.

Fyrsti Íslendingurinn á HM
Aron Jóhannsson, fyrrum leikmaður Fjölnis í Grafarvogi, ákvað að spila fyrir bandaríska landsliðið en ekki það íslenska. Ákvörðun sem var ansi umdeild í íslensku samfélagi. Hann var valinn af Jurgen Klinsmann í lokahóp Bandaríkjanna á HM og kom inn sem varamaður í fyrsta leik eftir aðeins 23 mínútur, Jozy Altidore meiddist í leik gegn Gana.

Suarez beit Chiellini
Luis Suarez var ansi áberandi á HM, hann gat ekki tekið þátt í fyrsta leik Úrúgvæ en mætti ferskur í næsta leik gegn Englandi þar sem hann skoraði sigurmarkið í 2-1 sigri. Í þriðja leiknum tryggði Úrúgvæ sæti í útsláttarkeppninni og sló Ítalíu út með 1-0 sigri. Frægasta atvikið var þegar Suarez og varnarmaðurinn Giorgio Chiellini voru að kljást í teignum og Suarez beit andstæðing sinn í öxlina.

Dómararnir sáu atvikið ekki og þrátt fyrir að Chiellini hafi sýnt dómaranum bitfar þá var ekki aðhafst. Aganefnd FIFA dæmdi Suarez svo í níu leikja bann. Án Suarez tapaði Úrúgvæ 2-0 fyrir Kólumbíu í 16-liða úrslitum.

Sjáðu frá því þegar Suarez beit Chiellini

Hollendingar lituðu mótið
Holland hafnaði í þriðja sæti mótsins með því að vinna Brasilíu 3-0 í bronsleiknum. Þeir appelsínugulu voru sannkallaðir gleðigjafara á mótinu og stórkostlegt flugskallamark Robin van Persie gegn Spáni í riðlakeppninni verður lengi í minnum haft.

Í 16-liða úrslitum stefndi allt í 0-1 tap gegn Mexíkó en þeir hollensku játuðu sig ekki sigraða. Sneijder jafnaði á 88. mínútu og Huntelaar skoraði sigurmark úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

Í 8-liða úrslitum gerði þjálfarinn Lous van Gaal óvænt markvarðaskipti rétt fyrir vítaspyrnukeppni gegn Kosta Ríka. Varamarkvörðurinn Tim Krul var settur í rammann og það reyndist rétt ákvörðun. Krul varði tvívegis og Holland fór áfram.

Í undanúrslitum var Arjen Robben að gera sig líklegan til að skora sigurmark gegn Argentínu þegar Javier Mascherano átti magnaða tæklingu sem bjargaði málunum. Markalaust og vítaspyrnukeppni. Krul kom ekki inn af bekknum að þessu sinni og Argentína vann.

Klose skráði sig á spjöld sögunnar
Þýski markahrókurinn Miroslav Klose varð markahæsti leikmaður í sögu HM. Hann skoraði sitt sextánda mark gegn Brasilíu í undanúrslitum. Mörk hans dreifast á fjórar heimsmeistarakeppnir og Klose hjálpaði Þjóðverjum að vinna stærsta titil fótboltaheimsins.

Þjóðverjar kafsigldu Neymarslausa heimamenn
Uppskrift heimamanna átti að vera á þá leið að Brasilía yrði meistari og Neymar aðalstjarnan. Uppskriftin heppnaðist ekki. Einn skemmtilegasti leikur mótsins var sigurleikur Brasilíu gegn Síle í 16-liða úrslitum í mögnuðu andrúmslofti. 1-1 eftir venjulegan leiktíma og brasilískur sigur í vítakeppni.

Eftir að hafa unnið Kólumbíu í 8-liða úrslitum var komið að leik gegn Þýskalandi í undanúrslitum. Stórstjarnan Neymar var meiddur og fyrir leikinn klæddust allir samherjar hans bolum merktum honum og sumir voru þeir með tárin í augunum, andrúmsloftið ótrúlega dramatískt og var engu líkara en að Neymar væri fallinn frá.

Brassarnir voru heillum horfnir og kramdir af þýska stálinu. Þjóðverjar brutu ísinn eftir ellefu mínútna leik og þegar hálftími var liðinn var staðan orðin 5-0! Brasilía náði sárabótamarki í lokin en niðurlægingin var algjör, 7-1 sigur Þýskalands í einum eftirminnilegasta leik í sögu HM. Brasilíska þjóðin var niðurbrotin.

Sjáðu svipmyndir úr leiknum

Úrslitaleikur: Þýskaland 1 - 0 Argentína
0-1 Mario Götze ('113)

Þriðja árið í röð vann Evrópuþjóð HM. Þýskaland vann keppnina í fjórða sinn en hetjan var Mario Götze sem skoraði í framlengingu. Götze hafði átt sveiflukennt mót og kom inn sem varamaður í leiknum og skoraði glæsilegt sigurmark.

Sviðsljósinu í kringum leikinn var beint á Lionel Messi, einn besta fótboltamann sögunnar. Hann átti eftir að vinna hinn heilaga kaleik, gullið á HM, en margir tala um að hann þurfi að vinna stærsta mót fótboltans áður en hann getur talist sá besti frá upphafi. Spurning er hvort hann fái betra tækifæri til að ná því en þarna?

Messi var skiljanlega hundsvekktur eftir leik. Mótshaldarar völdu hann besta leikmann mótsins en argentínski snillingurinn tók á móti þeim verðlaunum með fýlusvip eftir að hafa tapað úrslitaleiknum.

Leikmaðurinn: Thomas Müller
Þýski framherjinn er æðislegur leikmaður. Er hrikalega öflugur á mörgum sviðum leiksins og getur búið til mörk í öllum regnbogans litum. Sannur liðsmaður og leiðtogi en stjarna hans skein skært á HM 2014. Hann skoraði þrennu í 4-0 sigri gegn Portúgal á fimmta degi mótsins. Þá skoraði hann í undanúrslitaleiknum. Hann fékk silfurverðlaun í valinu á leikmanni mótsins, silfurskóinn fyrir markaskorun sína og var valinn í lið mótsins.

Markahrókurinn: James Rodriguez
Kólumbíski sóknarleikmaðurinn James, þá leikmaður Mónakó, var ekki þekktur fyrir mótið en hann skaust svo sannarlega til heimsfrægðar í Brasilíu. Eftir snilldarframmistöðu sem tryggði honum gullskóinn var hann á allra vörum. Leikmaðurinn sýndi tækni sína og hæfileika til að skora mörk. Hann skoraði mark ársins 2014 gegn Úrúgvæ, mark sem hægt er að horfa á aftur og aftur. Frammistaða hans á Hm tryggði honum samning hjá risaliði Real Madrid.

Úrvalslið mótsins:
Manuel Neuer (m) (Þýskaland); Marcelo (Brasilía), Mats Hummels (Þýskaland), Thiago Silva (Brasilía), David Luiz (Brazil); Angel Di María (Argentína), Toni Kroos (Germany), James Rodríguez (Kólumbía); Neymar (Brasilía), Lionel Messi (Argentína), Thomas Müller (Þýskaland).

Leikvangurinn: Maracana
HM var haldið í Brasilíu 1950 og 2014, í báðum mótum var úrslitaleikurinn á hinum fræga Maracana leikvangi. Fyrir síðarnefnda mótið voru gríðarlegar endurbætur á leikvangnum og hann nútímavæddur. 2016 var Maracana helsti vettvangur Ólympíuleikana en eftir þá stóð leikvangurinn ónotaður í langan tíma og ekkert var hugsað um hann. Hann liggur undir skemmdum og þegar þetta er skrifað er ljóst að það þarf að eyða háum fjárhæðum í lagfæringar

Sjá einnig:
HM í Úrúgvæ 1930
HM á Ítalíu 1934
HM í Frakklandi 1938
HM í Brasilíu 1950
HM í Sviss 1954
HM í Svíþjóð 1958
HM í Síle 1962
HM á Englandi 1966
HM í Mexíkó 1970
HM í Vestur-Þýskalandi 1974
HM í Argentínu 1978
HM á Spáni 1982
HM í Mexíkó 1986
HM á Ítalíu 1990
HM í Bandaríkjunum 1994
HM í Frakklandi 1998
HM í Suður-Kóreu og Japan 2002
HM í Þýskalandi 2006
HM í Suður-Afríku 2010

Flott syrpa frá mótinu:

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner