Real Madrid vill Rodri, Trent og Saliba - Karim Adeyemi orðaður við Man Utd - Newcastle vill Gomes
   þri 19. september 2023 11:04
Elvar Geir Magnússon
Hermoso: Ekkert hefur breyst
Hermoso fékk óumbeðinn rembingskoss á munninn frá Rubiales.
Hermoso fékk óumbeðinn rembingskoss á munninn frá Rubiales.
Mynd: Getty Images
Hermoso í leik á HM.
Hermoso í leik á HM.
Mynd: EPA
Sóknarmaðurinn Jenni Hermoso segir að sú ákvörðun að velja leikmenn í spænska landsliðið sem höfðu gefið það út að þeir myndu ekki spila sýni það að ekkert hafi breyst hjá spænska fótboltasambandinu.

Hermoso fékk óumbeðinn rembingskoss frá Luis Rubiales beint á munninn eftir að Spánn tryggði sér heimsmeistaratitil kvenna. Rubiales var forseti sambandsins en hefur nú sagt af sér.

Hermoso, og leikmennirnir sem neita að spila fyrir landsliðið, hafa kallað eftir algjörri breytingu og endurskoðun á öllu innan spænska sambandsins. Þær telja að afsögn Rubiales sé ekki nóg.

Samkvæmt spænskum lögum geta leikmenn sem hafna landsliðsvali fengið sekt og margra ára bann.

„Leikmennirnir telja þetta enn eitt dæmið um ójöfnuð og ósanngjarna meðferð til að hræða okkur og hóta lagalegum afleiðingum," segir hin 33 ára gamla Hermoso. „Þetta er enn eitt dæmið sem sýnir það skýrt að ekkert hefur breyst."

Montse Tome, sem tók við landsliðinu eftir HM, sagði að ástæðan fyrir því að Hermoso var ekki valin í landsliðshópinn, sem tilkynntur var í gær, væri sú að verið væri að verja hana eftir stormasamar vikur.

„Vernda mig frá hverju? Og frá hverjum?" spyr Hermoso. Spánn er að fara að keppa gegn Svíþjóð í Þjóðadeildinni á föstudag og svo gegn Sviss í næstu viku.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner