Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   fim 19. nóvember 2020 12:53
Elvar Geir Magnússon
Willum: Guðni gæti hringt í Sam Allardyce
Sam Allardyce.
Sam Allardyce.
Mynd: Getty Images
Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Sam Allardyce væri klárlega áhugaverður kostur," segir Willum Þór Þórsson, alþingismaður og fyrrum fótboltaþjálfari, þegar hann ræðir um stöðu landsliðsþjálfara Íslands.

Willum er viðmælandi hlaðvarpsþáttarins Arnarhóll og ræðir þar um fótbolta og fjármál.

Willum nefnir Englendinginn reynslumikla Stóra Sam Allardyce sem einn af þeim kostum sem KSÍ ætti að horfa til þegar skoðað er hver eigi að taka við landsliðinu.

„Ég hef hitt Sam Allardyce og setið með honum klukkustundar langt. Það var mjög gaman og hann hefur sterkar skoðanir á fótbolta."

„Til að einfalda hlutina eru menn að tala um gamla skólann, ég myndi væntanlega tilheyra honum, um einhverja sem eru eldri að árum og tilheyra einhverjum fótbolta sem áður var spilaður. Sam Allardyce er mjög nýjungagjarn og notar tölfræði mjög mikið. Ég held að fæstir átti sig á því en Guðni Bergsson, formaður KSÍ, þekkir hann miklu betur en ég og getur staðfest þetta," segir Willum.

Guðni spilaði lengi undir stjórn Stóra Sam hjá Bolton og þá var hann um tíma stjóri Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton.

„Allardyce talaði rosalega vel um Guðna Bergs sem leikmann og persónu. Hann sagði til dæmis að hann hefði í raun átt að spila með einhverjum af stóru liðunum. Guðni er í þeirri stöðu að geta hringt í kallinn og athuga hvernig hann er stemmdur," segir Willum.

Allardyce er 66 ára og hefur þjálfað mörg ensk lið. Hann tók við enska landsliðinu 2016 en stýrði liðinu aðeins í einum leik áður en hann sagði af sér eftir að blaðamenn í gervi kaup­sýslu­manna fóru á fund með hon­um þar sem hann var til­bú­inn að leiðbeina þeim að kom­ast fram­hjá regl­um enska knatt­spyrnu­sam­bands­ins gegn greiðslu.

Willum var sjálfur orðaður við landsliðsþjálfarastarfið á sínum tíma, þegar Lars Lagerback var ráðinn. Willum segist þó aldrei hafa verið kallaður inn á skrifstofur KSÍ til að ræða um landsliðsþjálfarastöðuna.

„Ég held að þetta sé draumastarf fyrir alla. Líka á þessum tímapunkti að byggja upp nýtt lið," segir Willum.

Smelltu hér til að hlusta á Willum í Arnarhóli
Athugasemdir
banner
banner
banner