mán 20. júlí 2020 18:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bestur í 6. umferð: Hef skap og mikla þörf fyrir að vinna leiki
Adam Ægir Pálsson (Keflavík)
Lengjudeildin
Adam Ægir er leikmaður umferðarinnar.
Adam Ægir er leikmaður umferðarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hann skoraði tvennu gegn Þrótti.
Hann skoraði tvennu gegn Þrótti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Vissulega vildum við mæta að krafti í leikinn og náðum við fljótlega ákveðnum tökum á leiknum, ásamt því að við sköpuðum okkur færi sem við naðum að nýta vel," segir Adam Ægir Pálsson, besti leikmaður sjöttu umferðar í Lengjudeild karla.

Adam skoraði tvennu í leiknum og skrifaði Sigurður Marteinsson, fréttaritari Fótbolta.net, í skýrslu sinni eftir leikinn: „Frábær í kvöld. Skoraði tvö mörk og var ótrúlega nálægt því að skora það þriðja. Var stórhættulegur í hvert skipti sem hann fékk boltann. Lét þetta líta út fyrir að vera auðvelt."

Sjá einnig:
Lið 6. umferðar: Rúnar og Sævar Atli í þriðja sinn

Keflvíkingar skoruðu öll fjögur mörk sín í leiknum á fyrstu 25 mínútunum. Adam segir að liðið hafi orðið værukært þegar líða fór á leikinn. „Í fyrri halfleik héldum við boltanum vel, létum hann ganga hratt og vorum þolinmóðir í leit að tækifærum. Með fjögurra marka forystu urðum við værukærir og jafnvel ofmátum okkur. Við fórum að hugsa meira sem einstaklingar en lið; í stað þess að gefa í og halda áfram með okkar leik."

Keflavík hefur byrjað mjög vel og er með 13 stig eftir sex leiki í þessari jöfnu deild.

Um byrjunina á tímabilinu segir Adam: 'Jújú alltílæ ekki gott' eins og þeir sælkerabræður segja. Við eigum fullt inni, eins og á móti Leikni R. og Grindavik, þrátt fyrir langan meiðslalista. En þetta lítur ágætlega út. Svo verðum við dæmdir af næsta leik sem er alltaf mikilvægasti leikurinn og lítið rými er til að misstíga okkur."

Adam, sem er fæddur 1998, hefur byrjað tímabilið af krafti og virðist hafa tekið miklum framförum. Hann segir marga þætti spila inn í hvað það varðar.

„Það eru mörg ár í vinnu, margar aukaæfingar og miklar fórnir sem eru að skila sér," segir Adam. „Það eru nokkrir þættir að spila inn í eins og hlaupageta, form, sjálfstraust, traust frá þjálfurum og jú, ég hef þroskast eitthvað andlega."

„Mitt hlutverk og markmið er að skora og leggja upp mörk í hverjum einasta leik því það er það sem leikmaður eins og ég er dæmdur af, en ekki skærum og hælspyrnum. Ég hef skap og mikla þörf fyrir að vinna leiki og geri miklar kröfur a sjálfan mig."

Að lokum fékk Adam klassíska spurningu um sín markmið fyrir sumarið og því sagði hann: „Aðalmarkmiðið er að hjálpa Keflavík upp um deild. Ég hugsa lítið um persónuleg markmið, en það væri nú gaman að skora tíu mörk og leggja upp önnur tíu mörk svo ég setji nú smá pressu á sjálfan mig."

Bestir í fyrri umferðum:
Bestur í 1. umferð: Fred Saraiva (Fram)
Bestur í 2. umferð: Bjarki Þór Viðarsson (Þór)
Bestur í 3. umferð: Sævar Atli Magnússon (Leiknir R.)
Bestur í 4. umferð: Andri Freyr Jónasson (Afturelding)
Bestur í 5. umferð: Sindri Kristinn Ólafsson (Keflavík)
Adam Ægir: Hefði verið sætt að setja þrennuna
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner