Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 21. júní 2021 19:36
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Félag Söru Bjarkar með stóra yfirlýsingu á leikmannamarkaðnum
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði.
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kvennalið Lyon í Frakklandi ætlar ekki að sætta sig við það að fara í gegnum annað tímabil án þess að vinna titil.

Síðasta tímabil var ekki eftirminnilegt fyrir Lyon sem hafnaði í öðru sæti frönsku úrvalsdeildarinnar á eftir Paris Saint-Germain og vann engan titil í fyrsta sinn í 15 ár.

Sara Björk Gunnarsdóttir er á mála hjá franska stórliðinu, en hún spilaði ekki með seinni hlutann þar sem hún er með barni.

Lyon hefur sent frá sér stóra yfirlýsingu á leikmannamarkaðnum því félagið var að semja við þrjá leikmenn. Christiane Endler og Signe Bruun koma frá helstu keppinautunum í Frakklandi í PSG og Danielle van de Donk kemur frá Arsenal.

Endler er einn besti markvörður í heimi og Bruun er dönsk landsliðskona sem spilar framarlega á vellinum. Van de Donk var í sex ár hjá Arsenal, einu besta liði Englands, en hún getur spilað á miðsvæðinu og á kanti.

Lyon er jafnframt að ganga frá kaupum á Perle Morroni, bakverði PSG. Hún mun skrifa undir þriggja ára samning við Lyon þegar búið er að ganga frá öllum smáatriðum.

Það er ólíklegt að Lyon sé búið að segja sitt síðasta. Hollenska markamaskínan Vivianne Miedema er mikið orðuð við félagið og yrði það risastórt fyrir Lyon að fá hana.
Athugasemdir
banner
banner