
„Ég er mjög svekktur," sagði Halldór Jón Sigurðsson, Donni, þjálfari Tindastóls eftir 5-0 tap liðsins gegn Þór/KA í bestu deild kvenna í kvöld.
Lestu um leikinn: Þór/KA 5 - 0 Tindastóll
„Við áttum flottan fyrri hálfleik og jafnræði með liðunum. Stórkostlegt hvernig við komum út í seinni hálfleikinn, frábær kraftur í liðinu. Eigum skot í slá og skorum frábært mark sem var svo því miður tekið af okkur. Ég er hins vegar hundfúll hvernig þetta endaði og hvernig við brugðumst við að fá á okkur fyrsta markið."
Tindastóll kom boltanum í netið snemma í síðari hálfleik en Sveinn Arnarsson dómari leiksins taldi bortið á Melissu markverði Þórs. Donni var ekki sammála því.
„Það sáu það allir sem vildu sjá. Hún hoppar upp og skallar boltann í markið og markmaðurinn reynir að ná honum en rekst í hana og dettur. Þá var það bara þannig."
Leikur liðsins hrundi eftir klukkutíma leik og Þór/KA skoraði þrjú mörk á sjö mínútna kafla.
„Það er algjör skita, vonbrigði dagsins, annan leikinn í röð sem við svörum ekki vel fyrir okkur eftir að fá á okkur fyrsta markið, ég bjóst við því að við myndum svara betur en svekkjandi að þær skyldu ná öðru og þá fannst mér botninn detta algjörlega úr þessu," sagði Donni.