Man Utd ætlar að bjóða í Barkley - Varane og Casemiro aftur til Real?
   fös 22. júlí 2022 09:30
Elvar Geir Magnússon
Heimild: BBC 
Barcelona í risastóru fjárhættuspili - Mun það ganga upp?
Fréttaskýring um fjármál Börsunga
Joan Laporta og Robert Lewandowski.
Joan Laporta og Robert Lewandowski.
Mynd: EPA
Forsetinn sæll og glaður.
Forsetinn sæll og glaður.
Mynd: EPA
Laporta með Raphinha.
Laporta með Raphinha.
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Þrátt fyrir bága fjárhagsstöðu hefur Barcelona farið mikinn á félagaskiptamarkaðnum og er hvergi nærri hætt. Barcelona skuldar miklu meira en félagið á en heldur áfram að kaupa stórstjörnur á yfirdrætti.

BBC fjallar um fordæmalausa stöðu spænska stórliðsins en í síðasta mánuði sagði Eduard Romeu, varaforseti efnahagsmála hjá Barcelona, að það þyrfti 500 milljónir evra til að „bjarga félaginu“.

Þrátt fyrir þessi ummæli Romeu hefur Barcelona eytt um 100 milljónum punda í Raphinha frá Leeds og Robert Lewandowski frá Bayern München og er að eltast við dýrar stjörnur á borð við Jules Kounde hjá Sevilla og Bernardo Silva hjá Manchester City.

Julian Nagelsmann, stjóri Bayern München, sagði að Barcelona væri eina félag heims sem ætti ekki neinn pening en gæti samt keypt hvaða leikmenn sem er.

Margir klóra sér í hausnum og skilja ekki hvernig félag sem er skuldum vafið geti eytt öllum þessum pening. Svarið er í raun ótrúlega einfalt en ljóst er að Barcelona er að taka mikla áhættu með þessum rekstri.

Laporta stýrir málum
Í júní kusu meðlimir Barcelona, eigendur félagsins, með því að Joan Laporta forseti félagsins fengi að framkvæma efnahagslegar aðgerðir til að fá peningainnspýtingu inn. Byrjað var á því að selja 10% af þeim innlendu sjónvarpspeningum sem koma eiga inn næstu 25 árin til bandaríska fjárfestingasjóðsins Sixth Street.

Barcelona fékk þá strax inn 200 milljónir punda, upphæð sem dugar fyrir kaupum sumarsins og vel það. Í morgun tilkynnti svo Barcelona að félagið hefði selt Sixth Street 15% til viðbótar fyrir 300 milljónir punda.

Með öðrum orðum er Barcelona að nota peninga sem eiga að koma inn í félagið í framtíðinni og áætlanir eru uppi um að gera það í enn frekari mæli. Félagið á nú peninga, þökk sé þessum samningum, en þeim gæti fylgt langtímakostnaður svo ekki sé minnst á áhættuna sem verið er að taka. Barcelona er að taka þátt í risastóru fjárhættuspili.

Óþolinmæði eftir árangri
Miðað við fjárhagsstöðu Barcelona hefði skynsama leiðin líklega verið sú að endurreisa liðið hægt og rólega og setja traust á sögufrægt unglingastarf félagsins. En Laporta hefur ekki þolinmæði fyrir því.

Andy West, blaðamaður BBC, lýsir Laporta sem heillandi popúlista sem vilji ekki vera minnst sem mannsins sem hjálpaði til að endurlífga Barcelona með því að leggja grunn að velgengni í framtíðinni. Hann vilji vera hetjulegi riddarinn sem nær strax að endurheimta þær dýrðir sem félagið þekkir. Hann vill vinna stóra titla og vill vinna þá strax.

Laporta veðjar á það að Barcelona komist aftur á toppinn og félagið muni þá fá allt sitt til baka. Félagið verður að keppa um stærstu titlana og laða að áhorfendur.

Eins og áður segir er um að ræða risastórt fjárhættuspil, félagið skuldar um milljarð punda.

Mun Raphinha geta stigið upp á næsta stig? Lewandowski verður 34 ára í næsta mánuði, Ousmane Dembele hefur verið meiðslahrjáður, geta ungstirnin Pedri, Gavi og Ansu Fati haldið áfram framþróun sinni? Nær Xavi að púsla vörninni saman?

Aðeins tíminn mun svara því. Áhættan er enn meiri þar sem rekstur með því að fá inn skammtíma innspýtingu getur ekki gengið á hverju ári. Aðgerðir sumarsins, innan og utan vallar, verða hreinlega að ganga upp.

Mun þetta ganga upp og Laporta standa uppi sem kóngur?
Laporta metur greinilega nauðsynlegt fyrir félagið að láta til sín taka á leikmannamarkaðnum og endurnýja hópinn. Þá þarf félagið að losa leikmenn á borð við Memphis Depay, Martin Braithwaite, Miralem Pjanic og Samuel Umtiti sem litlu hafa skilað en það er erfitt verkefni enda eru þeir á háum launum og í sumum tilfellum löngum samningum.

Frenkie de Jong hefur mikið verið í umræðunni. Xavi vill halda honum en í ljósi þess að Barcelona hefur Pedri og Gavi þá er De Jong ekki með öruggt byrjunarliðssæti og því falur fyrir rétta upphæð. En Barcelona skuldar De Jong laun frá tveggja ára tímabili og ef hann fer annað þarf að nást samkomulag um þær greiðslur.

Þetta og sú staðreynd að De Jong vill helst spila í Meistaradeildinni gera erfiðara fyrir Manchester United að geta keypt hann. Talið er að til að Barca geti sett alvöru kraft í að reyna að fá Silva þurfi að selja De Jong.

Þetta er áhugavert sumar hjá Barcelona og ef áætlanir Laporta ganga upp mun hnignun félagsins vera stöðvuð fljótt og hann standa uppi sem algjör kóngur. Ef Barcelona hinsvegar tapar í þessu fjárhættuspili verður fall félagsins orðið enn brattara.
Athugasemdir
banner
banner
banner