
„Við vissum að þær eru með mjög fínt lið og þurfum að eiga okkar besta leik til að ná í úrslita," sagði Sædís Rún Heiðarsdóttir varnarmaður Íslands við Fótbolta.net í gær en framundan er seinni leikurinn við Serbíu í umspili um áframhaldandi sæti í A-deild þjóðadeildarinnar.
Fyrri leikur liðanna fór fram á föstudaginn í Serbíu og þá lauk með 1 - 1 jafntefli.
„Þetta eru tveir leikir sem við þurfum að klára og fyrri leikurinn er búinn. Við erum staðráðnar í því að eiga góðan dag," hélt Sædís áfram en hvað þarf að gera öðruvísi núna til að vinna Serbana?
„Við þurfum að vera aðeins rólegri á boltanum og þora að halda í hann. Þetta var mikið basl í síðasta leik við eigum nóg inni. Við getum unnið öll lið á okkar degi og þetta er klárlega eitt af þeim. En við þurfum að hafa fyrir því."
Nánar er rætt við Sædísi í spilaranum að ofan en hún spilaði undanfarin ár með Stjörnunni en á nú skyndilega heimaleik á velli erkiféndanna í Breiðabliki þar sem ekki er hægt að spila á Laugardalsvelli.
„Það er mjög skrítið en bara skemmtilegt. Þetta er góður völlur svo ég get ekki beðið eftir þessum leik. Þetta var ekki besti völlur sem ég hef spilað á í Serbíu en gervigrasið hér er fínt. "
Athugasemdir