mið 27. janúar 2021 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gríðarlegt svekkelsi fyrir Arnór að fá ekki að spila með Eiði
Eiður Smári og Arnór.
Eiður Smári og Arnór.
Mynd: Óskar Pétur Friðriksson
Goðsögnin Arnór Guðjohnsen segir mikla eftirsjá í því að hafa ekki fengið að spila með syni sínum, Eiði Smára Guðjohnsen, með íslenska landsliðinu.

Eiður Smári kom inn á fyrir föður sinn í landsleik gegn Eistlandi 1996. Eiður var þá 17 ára gamall og Arnór 34 ára. Þeir eru tveir af bestu fótboltamönnum sem þjóðin hefur átt.

Þeir fengu ekki að spila saman, en það átti að gerast gegn Norður-Makedóníu nokkrum vikum síðar, á heimavelli. Það varð hins vegar ekkert úr því þar sem Eiður meiddist illa.

Arnór var í viðtali við Jóhann Skúla Jónsson þar sem hann fór um víðan völl. Hann ræddi meðal annars um þetta, þótt hann hefði helst ekkert viljað ræða það.

„Ég helst ræði þetta ekki," sagði Arnór og lýsti þessu sem miklu svekkelsi.

„Það hefði auðvitað verið hægt að gera þetta öðruvísi. Menn hugsuðu sér það að þegar þetta myndi ske, þá myndi það gerast hér á heimavelli. Eftir leikinn við Eistlandi, mánuði seinna kemur þessi leikur við Makedóníu þar sem átti að stilla okkur upp saman. Það átti að gera mikið úr því. Ég var að fá hringingar frá Japan, Ameríku og alls staðar úr heiminum og spurður að því hvort þetta yrði ekki örugglega. Þetta hefði fengið rosalega athygli."

„Svona tækifæri gefst bara einu sinni og menn hefði bara átt að gera þetta, og gera síðan enn meira úr því í næsta leik á eftir."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner