Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mið 27. janúar 2021 18:26
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
María ætlar að lyfta bikurum með Man Utd
María í búningi Man Utd.
María í búningi Man Utd.
Mynd: Getty Images
María Þórisdóttir gekk nýverið í raðir Manchester United frá Chelsea. María samdi við Manchester United út tímabilið 2023.

María er norsk landsliðskona en hún á ættir að rekja til Íslands þar sem faðir hennar er Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta.

María fær treyju númer þrjú hjá Manchester United og hún ætlar sér að vinna titla með félaginu. Kvennalið United var stofnað 2018 en hefur fljótt náð góðum árangri undir stjórn Casey Stoney. United er í titilbaráttu á Englandi þessa stundina.

„Þetta er risastórt félag og ef þú hefði sagt mér þegar ég var yngri að ég myndi spila hérna, þá hefði ég ekki trúað því. Ég er ótrúlega stolt að vera hluti af þessu félagi," sagði María í sínu fyrsta viðtali við vefsíðu Man Utd.

„Manchester United er rosalega vinsælt félag í Noregi. Ég tel það stórt að kona frá Noregi semji hérna, fyrir ungar stelpur í Noregi er þetta stórt. Þær sjá að þetta er tækifæri fyrir þær líka."

„Ég hef nokkrum sinnum spilað í Meistaradeildinni og það er stærsta keppni sem þú getur tekið þátt í. Ég vil hjálpa United að taka þátt í þeirri keppni. Vonandi getum við endað á meðal efstu þriggja og tekið þátt í Meistaradeildinni á næstu leiktíð."

„Mér finnst gaman að vinna og vonandi get ég lyft bikurum hérna, hvort sem það er í deildinni, bikarkeppnum eða Meistaradeildinni. Ég er með mikinn metnað."

Man Utd er sem stendur á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 29 stig eftir 12 leiki. Chelsea getur komist yfir United með því að vinna þá tvo leiki sem liðið á til góða. María var allan tímann á bekknum í 2-0 sigri gegn Birmingham um síðustu helgi en hún gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir félagið gegn Everton um næstu helgi.
Athugasemdir
banner
banner
banner