Ágúst Orri Þorsteinsson var maður leiksins hjá bæði Fótbolta.net og Vísi þegar Breiðablik mætti Samsunspor í Sambandsdeildinni í gær. Hann lék sem fremsti maður hjá Blikum og náði oft að valda miklum usla í vörn tyrkneska liðsins með öflugum sprettum.
Hann lagði upp fyrsta mark leiksins fyrir Davíð Ingvarsson. Hann fór illa með varnarmann Samsunspor og fann Davíð inn á teignum.
Hann lagði upp fyrsta mark leiksins fyrir Davíð Ingvarsson. Hann fór illa með varnarmann Samsunspor og fann Davíð inn á teignum.
Mörg erlend félög eru meðvituð um þennan tvítuga sóknarmann. Hann er U21 árs landsliðsmaður og hefur verið á mála hjá Malmö og Genoa. Það kom gott tilboð í hann í haust frá Póllandi sem Breiðablik hafnaði.
Það sýndi sig á síðasta tímabili að Lech Poznan var tilbúið að koma með stóru seðlana til Íslands og keypti þá Gísla Gottskálk Þórðarson frá Víkingi. Gísli Gotti átti góða frammistöðu í leikjum í Sambandsdeildinni, á stærra sviði en íslensku deildinni, og það er mikið gæðamerki.
Það voru pottþétt einhver erlend félög að fylgjast með Ágústi í gær og þessi frammistaða gerir ekkert annað en að auka líkurnar á því að hann fái annan möguleika á því að fara erlendis.
Í viðtali eftir leikinn var hann spurður hvort hann liti á þessa keppni sem auglýsingaglugga fyrir sig.
„Algjörlega. Ef þú ert að spila á svona stóru sviði og þú ert að standa þig, þá auðvitað kemur eitthvað spennandi kannski. En ég er ekkert að hugsa um það núna, ég ætla bara að klára þetta með Breiðablik og svo sjáum við bara til hvað gerist," sagði Ágúst í gær.
Athugasemdir





