Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 30. september 2022 14:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Var líka fyrirliði árið 2010 - „Ein sætasta minningin á ferlinum"
Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH.
Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH hefur ekki unnið bikarinn síðan 2010.
FH hefur ekki unnið bikarinn síðan 2010.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH fagnar marki í sumar.
FH fagnar marki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
'Það eru ekkert allir á Íslandi sem fá að spila svona leik'
'Það eru ekkert allir á Íslandi sem fá að spila svona leik'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta leggst mjög vel í okkur," segir Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH, um bikarúrslitaleikinn sem fer fram á morgun. FH mætir þá Víkingi á Laugardalsvelli.

Tímabilið hefur verið erfitt heilt yfir fyrir FH en þeir eru í fallsæti í Bestu deildinni er þeir koma inn í þennan leik.

„Eins og allir vita hefur þetta verið erfitt tímabil hjá okkur en þetta er gulrót sem við erum búnir að stefna lengi að. Það gæti breytt tímabilinu okkar töluvert ef við náum að vinna þennan leik. Ef við gerum það og ef barátta okkar í deildinni fer vel, þá er hægt að líta á þetta tímabil sem flott. Þetta leggst gríðarlega vel í okkur."

Víkingar eru sigurstranglegri aðilinn en Matti hefur trú á því að FH geti komið fólki á óvart á morgun. Hann býst við hörkuleik.

„Alltaf þegar við höfum mætt Víkingi þá hafa leikirnir verið mjög jafnir. Þeir unnu okkur 0-3 í Krikanum fyrr í sumar, en það var tiltölulega jafn leikur. Ég held að þetta verði jafn og góður leikur. Það er mín tilfinning."

„Andinn í hópnum er mjög góður. Þó það hljómi skringilega þá hefur hann alltaf verið góður hjá okkur í FH. Það er mikil eftirvænting. Það var fínt að fá aðeins að anda og vinna í okkar hlutum í landsleikjaglugganum. Við lítum á það jákvætt að fá smá leikjafrí fyrir þennan bikarúrslitaleik og þá leiki sem eru framundan," segir Matti.

Þó liðið hafi verið að ströggla í deildinni þá gæti FH endað með tvo af þremur bikurum - tvo af fjórum ef Meistarakeppni KSÍ er tekin með inn í myndina.

„Það er það sem við stefnum að núna (innsk. að vinna bikarúrslitaleikinn og halda sér uppi). Við erum bara að fókusa á úrslitaleikinn núna því það er allt önnur keppni. Við gætum endað uppi með tvo af þremur titlum sem eru í boði á Íslandi - Lengjubikarinn og Mjólkurbikarinn - og það væri ansi ljúft eftir tímabilið sem við erum búnir að ganga í gegnum."

Var einnig fyrirliði 2010
FH vann síðast bikarinn 2010 en það ár unnu þeir KR í úrslitaleiknum, 4-0. Matti var þá einnig fyrirliði FH og skoraði hann tvö mörk í þeim leik.

„Ég var fyrirliði 2010 þegar við unnum KR 4-0. Það er ein sætasta minningin á ferlinum. Það var geggjaður dagur fyrir alla FH-inga," segir hann.

„Það er kominn tími til að við vinnum bikarinn. Við erum á ákveðinni vegferð núna. Við sjáum Víkingana fyrir þremur árum þegar þeir unnu FH í bikarúrslitaleik 2019, þá voru þeir í ströggli í deildinni. Þeir eru búnir að gera vel eftir það."

Jákvæð teikn á lofti
Þráttt fyrir að tímabilið í deildinni, þá segir fyrirliðinn að það séu jákvæð teikn á lofti hjá Fimleikafélaginu. Félagið hélt endurreisnarfund á dögunum og eftir það hefur stuðningurinn við liðið verið mjög góður.

„Sérstaklega þegar við spilum undanúrslitaleikinn á móti KA," segir Matti um stuðninginn. „Við vitum að það er fullt af FH-ingum þarna úti. Spilamennskan hefur ekki verðskuldað svaka góðan stuðning, en við erum að sjá að það er fullt af fólki sem þykir vænt um félagið. Það hjálpar leikmannahópnum að sjá það. Þetta hefur verið að fara í jákvæðari átt hjá okkur þó við höfum tapað síðasta leik. Mér finnst jákvæðari teikn á lofti en það var fyrr í sumar."

„Við vonum að fólk komi á völlinn á morgun. Stuðningsfólkið hefur verið frábært í síðustu leikjum. Ég held að það sé spáð fínu veðri og vonandi koma svo flestir."

„Mér sýnist allir vera mjög spenntir í hópnum. Við fengum að æfa á Laugardalsvelli í vikunni. Það eru margir í hópnum sem höfðu aldrei komið inn á völlinn áður. Það eru margir ungir leikmenn. Það var geggjað. Það er langt síðan ég farið inn á völlinn," segir Matti og bætir við:

„Það er mjög góð stemning í hópnum og ég vona að okkar lið njóti þess að spila leikinn. Það eru ekkert allir á Íslandi sem fá að spila svona leik. Við þurfum að gefa allt í botn og njóta þess."

Leikur FH og Víkinga verður flautaður á klukkan 16:00 á morgun. Víkingarnir hafa tekið bikarinn tvisvar í röð og stefna á að vinna hann þriðja skiptið í röð. FH ætlar að reyna að koma í veg fyrir það.
Athugasemdir
banner
banner
banner