Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
   fim 12. maí 2005 07:54
Hafliði Breiðfjörð
Spá Fótbolta.net: 3. sæti
Sérfræðingar Fótbolta.net spá ÍA 3. sæti í efstu deild karla 2005.  Ellefu sérfræðingar spá í deildina fyrir okkur þetta árið en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær tíu stig, annað sæti níu og svo koll af kolli niður í tíunda sæti sem gefur eitt stig.  ÍA fékk 80 stig út úr þessu.

Sérfræðingarnir sem spáðu eru:
Aðalsteinn Víglundsson, Ásgeir Sigurvinsson, Bjarni Jóhannsson,  Guðmundur Hreiðarsson, Hörður Magnússon, Logi Ólafsson, Njáll Eiðsson, Pétur Pétursson, Samúel Örn Erlingsson, Sigurður Jónsson og Víðir Sigurðsson.



Hvað segir Sigurður?
Sigurður Jónsson þjálfari Víkinga er sérstakur álitsgjafi okkar um efstu deild karla. Sigurður hefur séð mikið af leikjum á undirbúningstímabilinu og hefur gríðarmikla þekkingu á íslenska boltanum.

Um liðið 
Breiddin er ekki mikil eins og staðan er í dag hjá Skagamönnum. Það má lítið út af fara ef ekki á að fara illa. Þeir eru að keyra þetta mikið á sama mannskap og í fyrra. Þeir eru alltaf í mjög góðu líkamlegu formi, lyfta og hlaupa mikið og hafa verið heppnir við að vera nokkuð lausir við meiðsli.

Það er spurning með markvörsluna, Þórður er búinn að vera í basli í allan vetur og hefur ekkert æft útaf hnjámeiðslum. Hann er auðvitað einn besti markmaðurinn á landinu og það verður slæmt ef hann verður ekki tilbúinn í byrjun móts.

Þá vantar líka meiri breidd í varnarleikinn. Ef maður eins og Gunnlaugur Jónsson meiðist þá gætu þeir lent í vandræðum. Þeir verða með sterkt byrjunarlið, tala nú ekki um ef flestir eru heilir. En þeir eru kannski ekki með mikla breidd fyrir utan það.

Óli er auðvitað alltaf öflugur, hann á eftir að lemja þetta saman. Það koma reyndar þarna upp sterkir leikmenn sem eiga vonandi eftir að láta að sér kveða (Urðu Íslandsmeistarar 2. flokks og U-23) ef þeir fá tækifæri.

Styrkleikar
Það er krafturinn og seiglan í liðinu, það er auðvitað óbilandi baráttugleði og það minnkaði ekkert við það að fá Dean Martin. Hann er hörkutól og svo er Pálmi algjör klettur þarna á miðjunni. Svo verður gaman að sjá hvernig þessi nýji Jugoslavi kemur út.

Það er ákveðið spurningamerki með markaskorunina. Það er það sem gæti verið vandamál enn eitt árið hjá Skagamönnum. Þeir hafa ekki verið að finna þennan 10 marka mann. Siggi Raggi er leikmaður sem hefur ekki verið að skora nægilega mikið af mörkum undanfarin ár og þó ég sé ekki alveg með tölfræðina á hreinu þá held ég að það sé á bilinu 4-5 mörk á ári. Það dugir auðvitað ekki og þeir eru að binda vonir um að Hjörtur verði í sama standi og þegar hann skoraði hérna 14-15 mörk en hann hefur ekki verið í formi til að spila í Úrvalsdeildinni síðustu ár. Hann er búinn að vera úti í Bandaríkjunum og maður veit eiginlega aldrei hvernig það er en ef hann er í topp standi þá gæti hann alveg verið sá maður, hann gæti verið fínn frammi með Sigga Ragga.

Þeir eru auðvitað með sterkasta hafsentaparið á landinu, Gulla og Reyni, þegar þeir ásamt Þórði í markinu eru heilir þá fara þeir langt á því. En það er auðvitað ekki nóg, þeir þurfa að fá 3 stig úr leikjunum og þeir þurfa menn til að klára leikina og það er svolítil áhætta ef þeir ætla bara að treysta á þessa tvo til að gera það. Ég tel að þeir þurfi að fá sér einn alvöru framherja í viðbót til að klára þetta nema Hjörtur sé auðvitað í þeim mun betra standi. En það vantar eins og ég sagði upp á breiddina, þeir hafa þessa 11 leikmenn en vantar kannski fleiri leikmenn en þessa ungu til að klára dæmið.

Spennandi að fylgjast með
Það verður gaman að sjá Dean Martin í Skagabúningnum. Hann er búinn að vera að spila vel núna og hefur verið sá leikmaður sem hefur verið að skapa hvað mest fyrir þá. Hann er alltaf mjög duglegur. En fyrir mér er alltaf gaman að sjá hvaða leikmann sem er í Skagabúningi, ég er auðvitað Skagamaður í húð og hár.

Þeir eru með mjög vinnusamt lið í nánast flestum stöðum en ég held að frumkvæðið og árásargirnin liggi mikið í Ellerti Jóni á hægri kantinum. Ég sá þá upp á Akranesi þegar þeir spiluðu við Keflavík og þar skoraði hann eitt mark og átti tvo skot í tréverkið. Ef hann verður jafn funheitur og hann virkar þá held ég að hann verði leikmaður sem gaman verður að fylgjast með í sumar. 
 



Þjálfarinn:
Gamli jaxlinn Óli Þórðar hefur komið víða við á sínum ferli en þrátt fyrir það hefur hann verið gallharður Skagamaður allan tímann. Hann hóf sinn þjálfunarferil hjá Fylki en þar þjálfaði hann við góðan orðstír 1998-1999. Ólafur tók síðan við þjálfun ÍA fyrir síðasta leik liðsins haustið 1999 og hefur hann verið þjálfari liðsins síðan. Undir hans stjórn hefur ÍA einu sinni orðið Íslandsmeistari, tvisvar sinnum bikarmeistari og deildabikarmeistari í hittifyrra.

Lestu viðtal okkar við Ólaf

Völlurinn:
Akranesvöllur tekur í heildina um 6000 áhorfendur. Stúkan sem er öðrum megin við völlinn tekur 570 í sæti en auk þess er pláss fyrir áhorfendur allt í kringum völlinn meðal annars í grasbrekkum.  Talan 6000 er kannski ekki alveg rétt þó því árið 1996, á lokaleik umferðarinnar í leik ÍA og KR voru 7700 áhorfendur.

Vefsíðumál:
Vefsíða ÍA birtir reglulegar fréttir af félaginu og eru þessi mál hvað best hjá IA af öllum félögunum í deildinni og mega þeir eiga hrós fyrir.  Truflandi er að klukkan á fréttum skuli ekki vera á íslensku og að lágmarksbreidd síðunnar hentar ekki næstum öllum og þarf þá að skrolla til hliðar.

Stuðningsmenn:
Meðal þekktra stuðningsmanna ÍA eru: Brynjólfur Þór Guðmundsson blaðamaður á Fréttablaðinu, Jóhann Ársælsson alþingismaður, Gísli Gíslason bæjarstjóri, Óli Palli dagskrárgerðarmaður á Rás 2, Gunni Sig bakari, Valdimar K Friðriksson varaþingmaður, Árni Ibsen rithöfundur, Jakob Einarsson leikari, Gísli S. Einarsson varaþingmaður, Benedikt Helgason bakari á Akureyri. Arnór Pétursson Fyrrum formaður Sjálfsbjargar, Helgi B. Daníelsson.

Spáin

nr. Lið Stig
1 ?? ?
2 ?? ?
3 ÍA 80
4 Valur 76
5 Fylkir 68
6 Keflavík 49
7 Þróttur 46
8 Fram 36
9 ÍBV 33
10 Grindavík 16

Um félagið

Íþróttabandalag Akranes
 Stofnað 1946
 
 Titlar:
 Íslandsmeistarar: 1951, 1953, 1954, 1957, 1958, 1960, 1970, 1974, 1975, 1977, 1983, 1984, 1992, 1993, 1994, 1995, 1996, 2001.
 Bikarmeistarar: 1978, 1982, 1983, 1984, 1986, 1993, 1996, 2000, 2003.
 Deildabikarmeistarar: 1996, 1999, 2003.
 

 Búningar:
 Gool
 
 Aðalbúningur:
 Gul treyja, svartar buxur, gulir/svartir sokkar
 
 Varabúningur:
 Svört treyja, svartar buxur, gulir/svartir sokkar

 
 Opinber vefsíða:

 ÍA.is/KIA

Komnir og farnir

Nýjir frá síðasta sumri:
Dean Edward Martin (1972) frá KA
Sigurður Ragnar Eyjólfsson (1973) frá KR
Andrés Vilhjálmsson (1980) (Kominn aftur eftir meiðsli)
Kristinn Darri Röðulsson (1986) frá Fram
Páll Gísli Jónsson (1983) frá Breiðablik
Farnir frá síðasta sumri:
Haraldur Ingólfsson (1970) hættur
Andri Karvelsson (1979) í árs frí frá boltanum
Grétar Rafn Steinsson (1982) til Young Boys
Stefán Þór Þórðarson (1975) til Norrköping
Richard Michael Barnwell (1979) (farinn frá liðinu)
Julian Schantz Johnsson (1975) í B68 í Færeyjum
Eyþór Ólafur Frímannsson (1979) í árs frí frá boltanum
 

Leikmenn ÍA

nr. Nafn Staða
1. Þórður Þórðarson Markvörður
2. Kristinn Darri Röðulsson Varnarmaður
4. Gunnlaugur Jónsson Varnarmaður
5. Ellert Jón Björnsson Miðjumaður
6. Reynir Leósson Varnarmaður
7. Dean Martin Miðjumaður
8. Pálmi Haraldsson Miðjumaður
9. Hjörtur Hjartarson Sóknarmaður
10. Sigurður R. Eyjólfsson Sóknarmaður
11. Kári Steinn Reynisson Miðjumaður
12. Páll Gísli Jónsson Markvörður
13. Ágúst Ö. Magnússon Miðjumaður
14. Jón Vilhelm Ákason Miðjumaður
15. Arnar Már Guðjónsson Miðjumaður
17. Unnar Örn Valgeirsson Varnarmaður
18. Guðjón Heiðar Sveinsson Varnarmaður
19. Heimir Einarsson Varnarmaður
20. Andri Júlíusson Sóknarmaður
22. Hjálmur Dór Hjálmsson Varnarmaður
23. Andrés Vilhjálmsson Miðjumaður
25. Helgi Pétur Magnússon Varnarmaður
26. Finnbogi Llorenz Varnarmaður
27. Hafþór Vilhjálmsson Miðjumaður
28. Þorsteinn Gíslason Sóknarmaður
 

Leikir ÍA

Dags: Tími Leikur
16. maí 17:00 ÍA - Þróttur
23. maí 19:15 Valur - ÍA
26. maí 19:15 ÍA - Grindavík
30. maí 19:15 ÍA - Fylkir
11. júní 14:00 Fram - ÍA
15. júní 19:15 ÍA - Keflavík
23. júní 19:15 FH - ÍA
29. júní 19:15 ÍA - ÍBV
7. júlí 19:15 KR - ÍA
12. júlí 19:15 Þróttur - ÍA
17. júlí 19:15 ÍA - Valur
26. júlí 19:15 Grindavík -ÍA
7. ágúst 18:00 Fylkir - ÍA
14. ágúst 18:00 ÍA - Fram
21. ágúst 18:00 Keflavík - ÍA
28. ágúst 18:00 ÍA - FH
11. sept 14:00 ÍBV - ÍA
17. sept 14:00 ÍA - KR

Athugasemdir
banner
banner