Arsenal leggur fram tilboð - Schick til Englands - Emi á útleið og fer Inzaghi til Sádi?
   sun 01. október 2023 12:55
Brynjar Ingi Erluson
Dæmdu í Sameinuðu arabísku furstadæmunum á fimmtudag
Darren England og Daniel Cook, dómarar í ensku úrvalsdeildinni, dæmdu í Sameinuðu arabísku furstadæmunum tveimur sólarhringum fyrir leik Tottenham og Liverpool í gær, en þetta kemur fram í Times í dag.

England og Daniel Cook gerðu afdrifarík mistök í leiknum á Tottenham Hotspur-leikvanginum, en England var VAR-dómari á meðan Cook var honum til aðstoðar.

Löglegt mark var tekið af Luis Díaz, en PGMOL (dómarasamtök ensku úrvalsdeildarinnar) hafa viðurkennt mistökin.

Einnig kom fram að misskilningur átti sér stað, en England taldi að Simon Hooper, vallardómari leiksins, væri að dæma mark. Því hafi England einungis verið að staðfesta að þetta væri réttur dómur hjá Hooper.

Paul Joyce hjá Times vekur athygli á því í grein sinni í dag að England og Cook voru báðir staddir í Sameinuðu arabísku furstadæmunum að dæma leik Al Ain og Al Sharjah í efstu deild.

Þeir sinntu starfi VAR-dómara og aðstoðardómara í þeim leik og flaug Michael Oliver einnig með þeim í það verkefni. Richard Keys hjá beinSPORTS veltir fyrir sér hvað þeir voru að gera þar.

„Af hverju var Michael Oliver í Sameinuðu arabísku furstadæmunum að dæma leik Al Sharjah og Al Ain? Darren England aðstoðaði með VAR. Oliver tók ekki þátt í gær en hann er VAR-dómari í dag. Of þreyttur? Ef það er staðan af hverju var England ekki tekinn af leiknum? Hættið þessari lausamennsku, það væri enn betra,“ sagði Keys á X (Twitter).

Þetta lítur ekkert sérlega vel út fyrir enska dómarateymið, en eins og vitað er, þá er Manchester City í eigu Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Hefur þetta því vakið hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum, sem kalla eftir því að þetta verði rannsakað.

Howard Webb, yfirmaður dómara í ensku úrvalsdeildinni, heimilaði ferð þeirra, vitandi það að þeir yrðu mættir fyrir helgi.

England og Cook voru settir tímabundið í skammarkrókinn eftir mistök gærdagsins, en England átti að vera fjórði dómara í leik Nottingham Forest og Brentford í dag á meðan Cook átti að vera aðstoðardómari í leik Fulham og Chelsea á morgun. Búið er að skipta þeim út fyrir Craig Pawson og Eddie Smart.
Athugasemdir
banner