Miðjumaðurinn fjölhæfi Alex Oxlade-Chamberlain er í viðræðum við ensk félög þessa dagana þar sem hann á ekki nema eitt ár eftir af samningi sínum við Besiktas í Tyrklandi.
Oxlade-Chamberlain, sem er að verða 32 ára, hefur komið við sögu í 50 leikjum á tveimur árum með Besiktas. Honum hefur ekki tekist að vinna sér inn fast sæti í byrjunarliðinu og vill skipta um félag.
Sky Sports greinir frá því að leikmaðurinn sé í viðræðum við nokkur félög úr enska boltanum en ekki er tekið fram hvaða félög. Aðrir fjölmiðlar á Englandi tala um Leeds United, Leicester City, Wolves og West Ham sem áhugasöm félög.
Oxlade-Chamberlain þótti gríðarlega öflugur fótboltamaður þegar hann var upp á sitt besta en tíð meiðslavandræði skemmdu fyrir honum. Hann lék með Arsenal og Liverpool í enska boltanum og var um tíma mikilvægur hlekkur í landsliðinu.
Athugasemdir