Króatíski þjálfarinn Slaven Bilic segir Declan Rice, leikmann West Ham, hafa komið sér verulega á óvart
Bilic er sá sem gaf Rice fyrsta byrjunarliðsleikinn er hann stýrði West Ham.
Hann sá hann frekar fyrir sér sem miðvörður og bjóst nú alveg við því að einn daginn yrði hann gerður að fyrirliða liðsins en frammistaða hans á miðjunni hefur komið honum á óvart.
Rice er í dag einn af betri miðjumönnum ensku úrvalsdeildarinnar og fastamaður í enska landsliðinu, en það stefnir allt í það að hann sé á leið til Bayern München í Þýskalandi.
„Við héldum að hann gæti einn daginn tekið við fyrirliðabandinu í miðverðinum, svona John Terry týpa, því hann var mjög áreiðanlegur og var mjög ákveðinn.“
„En sleppum kjaftæðinu. Leit út fyrir að hann yrði að einum bestu miðjumönnum ensku úrvalsdeildarinnar? Nei, ég get ekki logið því,“ sagði Bilic.
Athugasemdir