Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA, var mjög ánægður með skipulagið og vinnusemina í sínum mönnum í 2-1 sigrinum gegn Íslandsmeisturum FH í Lengjubikarnum í dag.
„Menn höfðu trú á því að við gætum unnið Íslandsmeistarana og það er til fyrirmyndar," sagði Tufa.
„Það hefur aðeins einkennt okkur í vetur að menn eru ekki 100% mótiveraðir á móti minni liðum. Við höfum verið að spila vel á móti Breiðabliki, Víkingi R. og svo FH í dag. En við erum á góðri leið og þetta verður gott í sumar."
Ólafur Aron Pétursson skoraði sigurmarkið í leiknum úr stórglæsilegri aukaspyrnu þegar hann var nýkominn inná.
„Hann er þekktur fyrir góðar aukaspyrnur og þetta var vel gert hjá honum. Þetta var góð skipting, eins og í körfuboltanum. Þeir sem komu inná í leiknum skildu allt eftir á vellinum."
KA er nýliði í Pepsi-deildinni í sumar. Margir bjuggust við því að félagið myndi láta meira a sér kveða á leikmannamarkaðnum en það hefur gert.
„Aðal markmið okkar var að halda þeim sem voru síðasta sumar. Við erum með vinstri bakvörð sem við ætlum að semja við og svo erum við að leita að styrkingum. Við viljum ekki sækja bara einhverja. Við viljum menn sem styrkja okkur algjörlega," segir Tufa en viðtalið má sjá í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir
























