Newcastle á eftir Scalvini - Barcelona snýr sér aftur að Díaz - Tottenham vill belgískan miðvörð
   fös 05. júlí 2024 21:48
Brynjar Ingi Erluson
EM: Frakkar mæta Spánverjum í undanúrslitum - Joao Felix skúrkurinn
Joao Felix skaut í stöng en Frakkar nýttu öll vítin
Joao Felix skaut í stöng en Frakkar nýttu öll vítin
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Kylian Mbappe fékk ekki mörg færi í leiknum en hann er enn að glíma við áverka í andliti
Kylian Mbappe fékk ekki mörg færi í leiknum en hann er enn að glíma við áverka í andliti
Mynd: EPA
Joao Felix var í öngum sínum eftir vítaklúðrið
Joao Felix var í öngum sínum eftir vítaklúðrið
Mynd: EPA
Portúgal 0 - 0 Frakkland (3-5 eftir vítakeppni)

Frakkar eru komnir í undanúrslit Evrópumótsins eftir að hafa unnið Portúgal í vítakeppni í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var ekki hin mesta skemmtun og skortur á góðum færum.

Færin voru fá. Theo Hernandez átti sennilega besta færið en það fór samt beint á Diogo Costa sem varði vel.

Varnarleikur beggja var til fyrirmyndar en Kylian Mbappe og Cristiano Ronaldo höfðu úr litlu að moða fram á við.

Síðari hálfleikurinn var allt annar. Portúgal fór vel af stað og átti nokkra fína sénsa til að skora.

Bruno Fernandes kom sér í dauðafæri á 61. mínútu en Mike Maignan gerði vel í að verja og hálfri mínútu síðar átti Joao Cancelo skot rétt yfir markið.

Maignan var í essinu sínu í leiknum. Hann tók aftur á stóra sínum á 63. mínútu og í þetta sinn frá Vitinha áður en boltinn datt til Ronaldo sem reyndi að hæla boltann aftur fyrir sig en Maignan var mættur til að bjarga marki.

Þessar mínútur voru þær fjörugustu í leiknum. Randal Kolo Muani átti að skora á 66. mínútu er hann fékk boltann inn fyrir en Ruben Dias mætti á ögurstundu til að bjarga aftur fyrir endamörk.

Frakkar fengu annað dauðafæri á 70. mínútu er boltinn datt fyrir Eduardo Camavinga í miðjum teignum. Hann leit upp áður en hann setti boltann framhjá Costa, en öfugu mögin við stöngina. Léttir fyrir Pepe sem seldi sig ódýrt í vörninni.

Ousmane Dembele, sem kom inn af bekknum, kom með meira líf inn í leikinn og átti fínasta skot sem fór rétt yfir markið áður en Costa greip skot Mbappe undir lok venjulegs leiktíma.

Önnur framlenging kvöldsins staðreynd. Í byrjun framlengingarinnar fékk Ronaldo sitt besta færi í leiknum en setti boltann hátt yfir úr miðjum teignum. Átti að gera betur í þessari stöðu.

Hinn 41 árs gamli Pepe var af og til í veseni í leiknum en náði einhvern veginn alltaf að bjarga sér. Baráttumaður sem leggur blóð, svita og tár í hvern einasta leik landsliðsins. Ronaldo var lítið að hlaupa allan leikinn en það kom aðeins meiri kraftur í hann í framlengingunni, þar sem hann byrjaði að sinna aðeins meiri varnarvinnu en venjulega.

Portúgal var svona líklegra liðið í fyrri hlutanum en annars var voðalega rólegt yfir þessu þannig lagað. Smá eins og bæði lið væru meira en tilbúin í vítakeppni.

Það vakti óvænta athygli að Mbappe var tekinn af velli í hálfleiknum í framlengingunni en hann er greinilega ekki 100 prósent heill. Hann náði ekki að skapa sér mikið í kvöld og fékk þá högg í andlitið í leiknum eftir skalla Bernardo Silva.

Joao Felix kom inn hjá Portúgölum og fékk hann frábært færi til að skora fyrsta mark leiksins eftir frábæra fyrirgjöf Francisco Conceicao en skalli Felix í hliðarnetið. Átti að minnsta kosti að koma þessum bolta á markið en gerði ekki.

Varamaðurinn Bradley Barcola átti skemmtilar hreyfingar á 114. mínútu þar sem hann fór á milli tveggja varnarmanna en skotið ömurlegt. Ágætlega gert fram að skotinu.

Undir lokin fékk Nuno Mendes dauðafæri til að koma Portúgölum í undanúrslit. Bernardo Silva var kominn einn hægra megin í teignum en Frakkarnir voru fljótir til baka, boltinn kom á Mendes sem var við vítateigslínuna en skot hans beint á Maignan í markinu.

Marcus Thuram fékk annað færi hinum megin á vellinum en náði ekki að munda skotfótinn og var þetta það síðasta sem gerðist eftir 120 mínútur.

Frakkar höfðu betur í vítakeppninni, 5-3. Joao Felix var skúrkurinn í vítakeppninni en hann setti sína spyrnu í stöng á meðan Frakkar skoruðu úr öllum sínum,

Vítakeppnin:
0-1 Ousmane Dembele
1-1 Cristiano Ronaldo
1-2 Youssouf Fofana
2-2 Bernardo Silva
2-3 Jules Kounde
2-3 Joao Felix skýtur í stöng
2-4 Bradley Barcola
3-4 Nuno Mendes
3-5 Theo Hernandez

Frakkar mæta Spánverjum í undanúrslitum en Portúgal er úr leik.
Athugasemdir
banner