Madueke og Gyökeres til Arsenal - Kudus til Tottenham - Chelsea þarf að selja
   mán 07. júlí 2025 07:40
Ívan Guðjón Baldursson
Kovac ósáttur með hitann og vallaraðstæður í Bandaríkjunum
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Niko Kovac þjálfari Dortmund svaraði spurningum eftir tap lærisveina hans í 8-liða úrslitum HM félagsliða gegn Real Madrid um helgina.

Dortmund og Real Madrid mættust á MetLife leikvanginum í New Jersey á norðausturströnd Bandaríkjanna klukkan 16:00 að staðartíma. Það var um 30 gráðu hiti þegar leikurinn fór fram, en aðrir leikir heimsmeistaramótsins hafa farið fram á enn heitari dögum.

Þetta eru langt frá því að vera kjöraðstæður fyrir íþróttafólk og kallar Kovac eftir því að FIFA skoði sín mál fyrir HM landsliða á næsta ári. Dortmund spilaði tvo leiki í riðlakeppninni í rúmlega 40 gráðu hita í Cincinnati.

„Leikmenn ættu ekki að spila fótbolta þegar sólin er svona hátt á lofti á dögum þar sem venjulegt fólk hættir sér ekki einu sinni út úr húsi," sagði Kovac eftir 3-2 tap í gríðarlega fjörugum leik gegn Real Madrid.

„Við munum sjá hvernig þeir gera þetta á HM á næsta ári. Þeir verða að hugsa betur um leikmennina. Við spiluðum tvo leiki í Cincinnati, einn í hádeginu og einn klukkan 3. Hitastigið náði 45 gráðum á köflum, það er ekki hægt að spila þannig.

„Ég mæli með því að leikirnir verði látnir byrja seinna þegar sólin er sest. Stuðningsmenn vilja horfa á skemmtilegan fótbolta þar sem leikmenn eru orkumiklir. Það er ekki hægt að spila þannig fótbolta þegar leikið er í svona miklum hita."


Leiktímarnir á HM félagsliða eru svona snemma til þess að laða evrópska áhorfendur að. Ef leikirnir færu fram á kvöldin í Bandaríkjunum væru beinu útsendingarnar um miðja nótt í Evrópu vegna tímamismunarins og það myndi minnka áhorf.

Kovac er einnig ósáttur með vellina í Bandaríkjunum þar sem hann telur grasið vera alltof stutt fyrir fótbolta.

„Grasið hérna er mjög stutt, tilvalið til að pútta í golfi. Þetta er ekki sú tegund af grasi sem við erum vanir í Þýskalandi, það er ekki búið að vökva það nógu mikið. Það er ekki hægt að spila fótbolta í hæsta gæðaflokki við svona aðstæður, völlurinn er alltof þurr og grasið alltof stutt."

Kovac er ekki fyrstur til að kvarta undan vallaraðstæðum í Bandaríkjunum en þjálfarar FC Porto og Palmeiras tjáðu sig báðir um vandamálið sem og Estevao, ungstirni Palmeiras.

Báðir undanúrslitaleikirnir fara fram á MetLife vellinum í Cincinnati og verður úrslitaleikurinn einnig spilaður þar. Úrslitaleikur á HM landsliða á næsta ári fer einnig fram á MetLife vellinum.
Athugasemdir
banner
banner