„Ég er búinn að vera meira og í útlöndum það sem af er ári," sagði Sigurður Egill Lárusson landsliðsmaður Íslands við Fótbolta.net í Las Vegas í gær en hann er í hópnum sem mætir Mexíkó í Bandaríkjunum í nótt.
Sigurður Egill fór með landsliðinu til Kína í janúar og hélt svo til tékkneska félagsins Jablonec þar sem hann var á reynsluæfingum.
„Ég var í Tékklandi í 5-6 daga og eftir það buðu þeir mér með í æfingaferð til Portúgals. Ég var þar í tæpa viku og það var mjög fínt," hélt Sigurður Egill áfram.
„Fyrst vildu þeir ekki leyfa ḿer að koma í þessa ferð en svo gengu samningaviðræður ekki upp á laugardagsmorgun og þeir gáfu mér grænt ljós á að fara."
Hann hefur undanfarin ár spilað með Val í Pepsi-deildinni en hefur haft hug á að leita tækifæra erlendis.
En hvað tekur við núna þegar ljóst er að ekkert verður af Tékklandsævintýrum?
„Það er bara í vinnslu. Ég hef hug á að spila úti og það kemur í ljós fljótlega eftir þessa ferð. Þessi leikur verður stór gluggi til að sýna sig."
Nánar er rætt við hann í sjónvarpinu að ofan en þar segir hann að leikurinn í ńott verði svipaður og á móti Chile í Kína þar sem andstæðingurinn verður meira með boltann.
Athugasemdir























