
„Ég er mjög óánægður með úrslitin. Þetta gekk frábærlega framan að og allt sem við lögðum upp með gekk upp. Við komumst 1-0 yfir og mér fannst eins og okkur liði illa 1-0 yfir, orðnir óvanir því. En við þurfum að gera betur, núna er þetta orðið ansi þungt leik eftir leik og úrslitin eru óásættanleg.“ sagði Haraldur Árni Hróðmarsson, þjálfari Grindavíkur, eftir 4-1 tap gegn Keflavík í kvöld.
Lestu um leikinn: Grindavík 1 - 4 Keflavík
Staðan hjá Grindavík er ekki góð en liðið hefur nú fengið 19 mörk á sig í fjórum leikjum og tapað fjórum leikjum í röð.
„Við erum hripleikir, það er bara þannig. Við erum búnir að prófa ýmsar áherslubreytingar, breytingar á taktík og prófa hitt og þetta, þegar upp er staðið að þá snýst þetta um það að klára manninn sinn og vinna saman sem heild sem hefur gengið illa. Það er eitthvað sem við þurfum að halda áfram að leita lausna á.“
Er eitthvað meira að frétta af leikmannamálum Grindavíkur en Haraldur hefur ekki farið leynt með það að Grindavík ætlar að styrkja sig í sumarglugganum.
„Það er allt í vinnslu. Svosem ágætur gangur í því en ekkert sem er tímabært að fara að staðfesta. Það kemur smá hjálp. Við erum í meiðslaveseni og þunnskipaði fyrir, við þurfum að bæta við okkur. Við erum að vinna í því og ég hef trú á því að það muni bera ávöxt.“
Veðrið var ekki að hjálpa fótboltanum í dag sem var spilaður á Stakkavíkurvellinum en það blés hressilega og ringdi mikið.
„Þetta var Suðurnesjaslagur í Suðurnesjaveðri. Þetta var skítaveður og ekkert skemmtilegt. Hins vegar nær Keflavík að skora fjögur í þessu veðri og það svíður.“
Næsti leikur Grindvíkinga er útileikur gegn Fjölni sem er algjör 6 stiga leikur.
„Hann er stór og maður vonar það kannski að spila við lið sem við erum að bera okkur saman við í töflunni muni setja smá blóð á tennurnar okkar, ekki veitir að. Við þurfum að rífa okkur upp, það verður enginn annar en við sjálfir sem gerum það.“ sagði Halli að lokum.
Viðtalið við Harald má finna í spilaranum í heild sinni hér að ofan
Athugasemdir