
Glódís Perla Viggósdóttir brast í grát og var mjög einlæg þegar hún ræddi við Fótbolta.net eftir 0-2 tap gegn Sviss á Evrópumótinu í gær. Við tapið féll Ísland úr leik á mótinu.
„Ég vildi gera allt sem ég gat fyrir liðið. Ég held að ég muni aldrei fyrirgefa mér fyrir það að fara út af í fyrsta leik. Þetta var bara óheppnistímasetning og svona fór þetta. Það er ekkert sem gerir mig stoltari en að spila með þessum stelpum og ég er til í að gera hvað sem er fyrir þær," sagði Glódís sem glímdi við magakveisu fyrir fyrstu tvo leiki mótsins.
„Ég vildi gera allt sem ég gat fyrir liðið. Ég held að ég muni aldrei fyrirgefa mér fyrir það að fara út af í fyrsta leik. Þetta var bara óheppnistímasetning og svona fór þetta. Það er ekkert sem gerir mig stoltari en að spila með þessum stelpum og ég er til í að gera hvað sem er fyrir þær," sagði Glódís sem glímdi við magakveisu fyrir fyrstu tvo leiki mótsins.
Rætt var um Glódísi og þessi orð hennar í EMvarpinu í dag.
„Það er í rauninni algjör þvæla," sagði Edda Sif Pálsdóttir, íþróttafréttakona á RÚV. „Hún var fárveik og hefði ekki átt að byrja þennan leik (gegn Finnlandi) yfir höfuð. Hún má alveg gleyma því að hún hafi verið að gera einhverjum eitthvað með því að fara af velli."
„Mér fannst líka ótrúlegt að hún hafi spilað allan leikinn í gær því hún mætti fyrst á æfingu í fyrradag og þegar ég sá hana þar þá hugsaði ég 'hún er aldrei að fara að spila á morgun'. Svo man maður að Glódís myndi örugglega spila þó hún væri fótbrotin á báðum. Ég held að hún myndi spila nánast sama hvað. Hún hefur örugglega verið orðin óbærilega þreytt og búin á því, og þá kannski líður manni svona. Ég skil að henni líði svona en guð minn góður, ég vona að hún sjái að þetta er ekki staðan," sagði Edda jafnframt.
„Glódís er ekkert í skuld við einn né neinn eftir þetta mót," sagði Einar Örn Jónsson.
Það segir kannski mikið um hugarfarið sem Glódís hefur að henni skuli líða svona þegar það var í raun ótrúlegt að hún hafi spilað þennan fyrsta leik.
„Hún er frábær fyrirliði og þær hafa allar talað um að hún sé einstök," sagði Edda. „Við töluðum við kærastann hennar og fyrir utan það að gleyma símanum inn í ísskáp er hún fáránlega pottþétt. Hún sýndi það heldur betur á þessu móti hvað býr í henni. Þetta er fjórða mótið hennar og hana langaði svo mikið til að þær myndu ná betri árangri."
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan og á öllum hlaðvarpsveitum.
Athugasemdir