PSG leiðir kapphlaupið um Salah - Tuchel á blaði Man Utd - Newcastle líklegt til að reyna aftur við Guehi
banner
   sun 08. september 2024 20:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Izmir
Myndir: Hér verða læti á morgun - Kvartar ekki með Laugardalsvöllinn heima
Icelandair
Frá Gürsel Aksel Stadium í Izmir.
Frá Gürsel Aksel Stadium í Izmir.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Frá æfingu Íslands á vellinum í dag.
Frá æfingu Íslands á vellinum í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Völlurinn tekur um 20 þúsund manns í sæti.
Völlurinn tekur um 20 þúsund manns í sæti.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ísland spilar á morgun sinn annan leik í Þjóðadeildinni. Eftir 2-0 sigur á Svartfjallandi síðasta föstudag er komið að því að heimsækja Tyrkland.

Íslandi hefur gengið vel í Tyrklandi í gegnum árin, en það er alltaf erfitt að koma hingað þar sem áhorfendur eru líka þeir háværustu og ástríðufyllstu í heiminum.

Leikurinn fer að þessu sinni fram í Izmir, sem er þriðja fjölmennasta borg Tyrklands. Hér er mikill hiti, um 30 gráður, en það er stutt í sjóinn og golan er nokkur.

Á morgun verður spilað á Gürsel Aksel Stadium, heimavelli Göztepe. Völlurinn tekur tæplega 20 þúsund manns í sæti og má búast við því að það verði uppselt. Fólk stóð í röðum í dag að kaupa miða á leikinn.

„Ef þú spilar í Tyrklandi, annað hvort í Istanbúl eða Izmir, þá er alltaf gott andrúmsloft. Við höfum sýnt þegar við spilum í sterku andrúmslofti, þá rís liðið upp. Það gengur í báðar áttir því það eru miklar væntingar til tyrkneska liðsins frá áhorfendum en ég veit að mínir leikmenn njóta þess að spila í sterku andrúmslofti," sagði Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, á fréttamannafundi í dag.

„Þegar þú spilar í Tyrklandi þá er mikið líf á áhorfendapöllunum og mér finnst gaman að því. Okkur hlakkar til. Að spila í Izmir, það er mjög gaman að vera hérna. Það er hlýrra en á Íslandi og ég vona að fá við fáum gott andrúmsloft á morgun."

Ekki að fara að kvarta með Laugardalsvöllinn heima
Íslenska liðið æfði á vellinum í dag og segir Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsfyrirliði, vallaraðstæður vera fínar.

„Við höfum engar áhyggjur. Völlurinn er nokkuð sléttur. Við erum vanir að spila í alls konar aðstæðum. Boltinn gekk nokkuð vel á milli manna. Völlurinn er kannski smá harður en það er ekkert sem við erum að fara að kvarta yfir. Völlurinn er bara flottur og grasið er nokkuð gott. Við erum ekki að fara að mæta hingað og kvarta yfir aðstæðum þegar við erum með Laugardalsvöllinn heima," sagði Jóhann Berg ákveðinn en það á loksins að fara að vinna í Laugardalsvellinum síðar á þessu ári. Þá verður hybrid-gras lagt á völlinn.

Fréttamaður Fótbolta.net er á staðnum og tók meðfylgjandi myndir á vellinum. Hér verða læti annað kvöld.
Athugasemdir
banner
banner
banner