banner
   þri 09. ágúst 2022 22:12
Ívan Guðjón Baldursson
Marseille fær Veretout (Staðfest) - Milan og Tottenham höfðu áhuga
Mynd: Getty Images
Suarez kom inn af bekknum og skoraði tvö.
Suarez kom inn af bekknum og skoraði tvö.
Mynd: Getty Images

Franska félagið Marseille er búið að tryggja sér miðjumanninn öfluga Jordan Veretout frá AS Roma.


Marseille borgar um 12 milljónir evra fyrir þennan leikmann sem kom að 12 mörkum í 36 leikjum á síðustu leiktíð í Serie A.

Veretout var vítaskytta Roma og skoraði 10 mörk í 29 leikjum deildartímabilið 2020-21. Hann er með frábæran hægri fót og spilaði fimm landsleiki fyrir Frakkland í fyrra.

Það var vitað í janúar að miðjumaðurinn yrði seldur í sumar þar sem hann bað Jose Mourinho um sölu. Roma er búið að fá Georginio Wijnaldum lánaðan frá PSG og var því reiðubúið til að selja Veretout.

AC Milan og Tottenham sýndu honum mikinn áhuga og er Milan enn í leit að miðjumanni eftir að hafa misst af Veretout. Tottenham keypti Yves Bissouma frá Brighton.

Veretout, 29 ára, skrifar undir þriggja ára samning við Marseille. Hann var kynntur sem nýr leikmaður á laugardaginn og spilaði síðasta hálftímann í sannfærandi 4-1 sigri í fyrstu umferð franska deildartímabilsins á sunnudaginn. 

Marseille hefur farið mikinn á leikmannamarkaðinum í sumar og skoruðu nýir leikmenn félagsins í sigrinum um helgina. Nuno Tavares, sem er á láni frá Arsenal, komst á blað ásamt hinum öfluga Luis Suarez sem var keyptur frá Granada fyrir um 10 milljónir evra.

Suarez kom inn af bekknum á 62. mínútu fyrir Arkadiusz Milik og skoraði tvennu. Til gamans má geta að Folarin Balogun, annar lánsmaður frá Arsenal, gerði eina mark andstæðinganna í Stade de Reims í leiknum. Balogun kom inn af bekknum á 64. mínútu.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner