Risatilboði Chelsea hafnað - Tekur Nuno við West Ham? - Tveir á blaði United - Ungur miðvörður til Arsenal?
   mán 15. september 2025 23:15
Ívan Guðjón Baldursson
Messi tveimur mörkum á eftir Surridge
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Argentínska goðsögnin Lionel Messi hefur skorað 19 mörk og gefið 11 stoðsendingar með Inter Miami á MLS tímabilinu til þessa.

Hann er næstmarkahæstur í deildinni sem stendur, tveimur mörkum á eftir Sam Surridge framherja Nashville SC.

Messi hefur þó enn góða möguleika á að taka framúr í kappinu um hver verður markahæstur á deildartímabilinu. Surridge á eftir að spila fjórar umferðir á tímabilinu en Messi og félagar eiga eftir að spila átta umferðir, eftir að hafa misst af leikjum í sumar vegna HM félagsliða.

Messi hefur í gegnum tíðina einna helst barist við Cristiano Ronaldo um titilinn markahæsti leikmaður tímabilsins en núna er hann að berjast við Surridge.

Messi er á sinni annarri heilu leiktíð í MLS deildinni en hann endaði næstmarkahæstur í fyrra með 20 mörk skoruð. Hann var þremur mörkum á eftir Christian Benteke. Þess má þó geta að Messi gaf 17 stoðsendingar gegn 7 stoðsendingum frá Benteke.

Denis Bouanga, sem skoraði 20 mörk á síðustu leiktíð alveg eins og Messi, er í þriðja sæti í kapphlaupinu í ár. Margir leikmenn deila næstu sætum fyrir neðan í gríðarlega jöfnu og spennandi kappi um hver verður mesti markaskorari deildarinnar.

Messi hefur í gegnum tíðina orðið markahæstur í spænsku deildinni átta sinnum og af þeim skiptum varð hann fimm sinnum markahæstur í Evrópu. Á sínu besta deildartímabili skoraði hann 50 mörk í La Liga.

Til samanburðar hafði Surridge aldrei skorað meira en 8 mörk á sama deildartímabili fyrr en í fyrra. Mörkin átta skoraði hann þegar hann lék í D-deild enska boltans.

Surridge lék með Bournemouth, Stoke City og Nottingham Forest í Championship deildinni og á í heildina 1 mark í 26 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

Hann er 27 ára gamall og var keyptur í MLS deildina fyrir 5 milljónir punda.

Hann skoraði eitt mark í þremur leikjum með U21 landsliði Englands og er í dag helsta markavél Nashville.

Ef Surridge endar sem markahæsti leikmaður deildarinnar verður hann annar Englendingurinn til að afreka það.Bradley Wright-Phillips var markahæstur 2014 og 2016 með New York Red Bulls og varð þar með fyrsti Englendingurinn til að vera krýndur markakóngur í Bandaríkjunum.

Landon Donovan, Sebastian Giovinco og Carlos Vela eru einnig meðal leikmanna sem hafa verið markahæstir í deildinni.
Athugasemdir
banner