„Þetta var fyrir mér bara 50-50 leikur en þeir klára hann. Bæði lið fá fín færi en það sem situr eftir hjá mér eftir þennan leik er að við fáum tvö mörk á okkur úr föstum leikatriðum. Það er gjörsamlega óásættanlegt, við erum búnir að vera frábærir í að verjast þeim í sumar og þetta er mjög úr karakter hjá okkur.“ Sagði að vonum svekktur þjálfari Aftureldingar sem þarf að horfast í augu við að enda í botnsæti Bestu deildarinnar nú þegar deildinni er skipt eftir 3-1 tap gegn ÍA á Akranesi í dag.
Magnús var þó ekki ósáttur við frammistöðu liðsins sem slíka en saknar þess að liðið nýti færin sín sem reynist þeim dýrt þegar upp er staðið.
„Við byrjum leikinn frábærlega og eigum fyrir mér að vera komnir yfir áður en að þeir skora. Þetta er því mjög svekkjandi þegar maður horfir yfir leikinn. Auðvitað er þetta kaflaskipt en alls ekki leikur sem við eigum að tapa 3-1 að mínu mati.“
Framundan hjá Aftureldingu er hörð fallbarátta í neðri riðli Bestu deildarinnar. Alls fimm leikir sem alla má flokka sem úrslitaleiki. Magnús kallar eftir því að sá góði stuðningur sem liðið fékk á Akranesi haldi áfram og stuðningsmenn bæti enn frekar í.
„Nú er úrslitakeppni framundan og ég er mjög þakklátur fyrir þann stuðning sem við fengum í dag. Ég vonast til þess að sjá ennþá fleiri Mosfellinga með okkur á pöllunum í úrslitakepnninni. Við eigum að vera stolt að vera með lið í Bestu deildinni í fyrsta skipti og við eigum fimm leiki eftir þar sem við getum ráðið okkar eigin örlögum.“
Sagði Magnús en allt viðtalið við hann má sjá hér að ofan.
Athugasemdir