Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 17. mars 2023 15:13
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Segist hafa fengið gríðarlega góðan samning á Íslandi
Lengjudeildin
Í leik með Silkeborg.
Í leik með Silkeborg.
Mynd: Getty Images
Þórsarar fagna marki.
Þórsarar fagna marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í janúar síðastliðnum var tilkynnt að Þór frá Akureyri hefði gengið frá samningi við Marc Rochester og mun hann leika með liðinu á komandi tímabili í Lengjudeildinni.

Hann er þrítugur danskur miðjumaður með frábæra ferilskrá miðað við leikmann sem er að fara að spila í Lengjudeildinni. Hann hefur á sínum ferli leikið 99 leiki í dönsku úrvalsdeildinni, flesta með Silkeborg.

Hann kemur til Þórs frá sænska félaginu Öster. Þar lék hann undir stjórn Srdjan Tufegdzic - Túfa - á síðustu leiktíð og við hlið Alex Þórs Haukssonar á miðsvæðinu. Túfa er fyrrum þjálfari KA, Grindavíkur og fyrrum aðstoðarþjálfari Vals.

Rochester var í lykilhlutverki í liði Öster sem hafnaði í þriðja sæti sænsku B-deildarinnar; lék 25 leiki og skoraði í þeim fimm mörk auk þess að eiga þrjár stoðsendingar en hann var varafyrirliði liðsins.

Í samtali við Bold í Danmörku segir Rochester, sem er þrítugur að aldri, að hann hafi fengið ansi góðan samning á Íslandi og því ákveðið að koma hingað. Hann kveðst vera með betri samning hjá Þór en hjá Öster.

„Fjárhagslega er þetta mjög gott fyrir mig, ég fékk mjög góðan samning," segir Rochester við Bold og bætir við að samningurinn sé öðruvísi en í Danmörku og Svíþjóð, en fer ekkert frekar út í það.

„Þetta er það besta fyrir mig fjárhagslega séð. Ég fæ líka bíl og íbúð hér svo ég þarf ekki að hafa áhyggjur af miklum kostnaði."

Hann segir að það sé aukin pressa á sér þar sem hann er á góðum samningi.

„Það er gott að vera á góðum launum en það eru líka miklar væntingar frá félaginu. Ég þarf að leggja mikið af mörkum innan sem utan vallar."

Rochester segir að launin séu mikilvæg en hann bætir líka við að þjálfarinn, Þorlákur Árnason, sé með gott plan fyrir sig. Hann segist hafa fengið tilboð frá Danmörku og Svíþjóð, en leist best á að semja á Akureyri.
Athugasemdir
banner
banner