lau 19. september 2020 17:47
Ívan Guðjón Baldursson
Bale fær treyju númer 9 - Ekki með fyrr en 17. október
Mynd: Getty Images
Gareth Bale gekk í raðir Tottenham Hotspur í annað sinn á ferlinum eftir sjö ár hjá Real Madrid. Tottenham gekk frá lánssamningnum í dag og er talið greiða 20 milljónir punda í heildina.

Bale fær treyju númer 9 hjá Tottenham sem Vincent Janssen og Roberto Soldado hafa klæðst síðustu sjö ár.

Bale var fyrst í treyju númer 16 þegar hann gekk í raðir Tottenham fyrir þrettán árum. Hann byrjaði sem vinstri bakvörður og tók því treyju númer 3 í nokkur ár, þar til hann var búinn að festa sig í sessi sem einn af bestu kantmönnum heims. Hann fékk því ellefuna á sínu síðasta tímabili áður en hann var keyptur til Real Madrid.

Bale mun þó ekki spila næstu leiki fyrir Spurs því hann er meiddur á hné. Hann hefur verið að glíma við ýmis meiðsli á undanförnum árum hjá Real og verður frá næstu vikurnar.

Tottenham býst ekki við að Bale verði liðtækur fyrr en eftir næsta landsleikjahlé í október. Ef allt gengur að óskum mun hann spila sinn fyrsta keppnisleik fyrir Tottenham 17. október, á heimavelli gegn West Ham.

Bale er 31 árs gamall og skoraði 105 mörk í 251 leik hjá Real Madrid. Hann vann spænsku deildina tvisvar, bikarinn einu sinni og Meistaradeildina fjórum sinnum hjá félaginu.

Bale er goðsögn hjá velska landsliðinu og Tottenham. Á sínu síðasta tímabili hjá Spurs skoraði Bale 21 mark í 33 úrvalsdeildarleikjum.
Athugasemdir
banner
banner
banner