þri 22. júní 2021 20:55
Brynjar Ingi Erluson
EM: Englendingar tóku toppsætið - Króatía og Tékkland áfram
Raheem Sterling þakkar Jack Grealish kærlega fyrir stoðsendinguna
Raheem Sterling þakkar Jack Grealish kærlega fyrir stoðsendinguna
Mynd: EPA
England tryggði sér toppsætið í D-riðli Evrópumótsins með 1-0 sigri á Tékklandi í kvöld. Raheem Sterling skoraði sigurmarkið. Króatía tekur annað sætið eftir 3-1 sigur á Skotlandi.

Gareth Southgate gerði fjórar breytingar á byrjunarliði sínu fyrir leikinn gegn Tékklandi og fékk Jack Grealish loks tækifærið til að bæta sóknarleikinn.

Það tók hann ekki langan tíma að skila sínu. Grealish lagði upp sigurmark Englendinga á 12. mínútu er hann keyrði vinstra megin inn í teiginn, lyfti boltanum á fjærstöngina þar sem Raheem Sterling var mættur til að stanga boltann inn.

Harry Kane hefur ekki enn tekist að skora á mótinu en hann fékk þó frábært tækifæri til þess stuttu síðar en Tomas Vaclik varði frá honum. Tékkar áttu nokkur hættuleg færi í fyrri hálfleiknum en náðu þó ekki að afgreiða það í netið.

Jordan Henderson kom boltanum í netið undir lok leiksins en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Jude Bellingham pressaði varnarmann Tékklands og kom tánni í boltann sem barst síðan á Henderson, sem var vel fyrir innan.

Englendingar geta farið sáttir úr riðlinum en liðið vann tvö og gerði eitt jafntefli og þá hefur liðið ekki enn fengið á sig mark. Liðið hafnar í efsta sæti riðilsins með 7 stig.

Króatía tekur annað sætið eftir 3-1 sigur á Skotlandi. Nikola Vlasic, leikmaður CSKA Moskvu, kom Króötum yfir á 17. mínútu. Hann kom inn í liðið fyrir þennan leik og þakkaði traustið. Callum McGregor jafnaði fyrir Skota undir lok fyrri hálfleiks.

Bæði lið vissu að jafntefli myndi ekki gera neitt fyrir þau og voru það því Króatar sem tóku á skarið í þeim síðari. Luka Modric skoraði með glæsilegu utanfótarskoti fyrir utan teig á 62. mínútu áður en Ivan Perisic gulltryggði liðinu sigurinn.

Mark Perisic var mikilvægt því þetta þýðir það að Króatía fer upp fyrir Tékkland og í annað sæti. Tékkar fara þó áfram enda eitt af fjórum liðum með bestan árangur í 3. sæti.

Króatía 3 - 1 Skotland
1-0 Nikola Vlasic ('17 )
1-1 Callum McGregor ('42 )
2-1 Luka Modric ('62 )
3-1 Ivan Perisic ('77 )

Tékkland 0 - 1 England
0-1 Raheem Sterling ('12 )
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner