Liverpool skoðar Davies - City fer á markaðinn - Man Utd vill Gutierrez - Bruno og Garnacho ekki öruggir - Fleiri orðaðir frá United
   fim 24. september 2020 21:11
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Blikar og Fylkir með góða sigra í Evrópubaráttunni
Flottur sigur Blika gegn Stjörnunni.
Flottur sigur Blika gegn Stjörnunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Orri Sveinn gerði sigurmark Fylkis.
Orri Sveinn gerði sigurmark Fylkis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tveir síðustu leikir dagsins í Pepsi Max-deild karla voru að klárast. Breiðablik og Fylkir tóku stigin þrjú sem voru í boði úr þessum leikjum.

Breiðablik fékk Stjörnuna í heimsókn; þar voru tvö lið að mætast sem ætla sér að komast í Evrópukeppni. Stjarnan fékk skell gegn Val í vikunni, en leikurinn í kvöld byrjaði betur fyrir þá þar sem fyrirliði þeirra Alex Þór Hauksson skoraði fyrsta mark leiksins á 28. mínútu með frábæru skoti. Markið kom gegn gangi leiksins að mati Kristófer Jónssonar, fréttamanns Fótbolta.net á vellinum.

Forystan var ekki langlíf því Viktor Karl Einarsson jafnaði sex mínútum síðar og liðin gengu jöfn til búningsklefa.

Blikarnir sóttu á Stjörnuna og þeir fengu víti á 62. mínútu eftir að Alex Þór tók Brynjólf Willumsson niður í teignum. Thomas Mikkelsen fór á vítapunktinn og skoraði.

Þar við sat og lokatölur 2-1 fyrir Breiðablik sem fer með þessum sigri upp í þriðja sæti með 26 stig. Stjarnan er í sjötta sæti með 24 stig, en á leik til góða á Blika.

Fylkismenn eru með í baráttunni um Evrópusæti eftir sigur gegn nokkuð lánlausum Víkingum á heimavelli.

Ásgeir Eyþórsson skallaði aukaspyrnu í netið á 27. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik fyrir heimamenn. „Verið kaflaskiptur leikur og heilt yfir ágætis jafnræði með liðunum. Bæði lið óheppin að vera ekki búin að skora fleiri mörk í leiknum," skrifaði Stefán Marteinn Ólafsson í textalýsingu sinni þegar flautað var til hálfleiks.

Á 68. mínútu jafnaði Kristall Máni Ingason með sínu fyrsta marki í Pepsi Max-deildinni. Víkingar voru hins vegar ekki glaðari aðilinn frá Würth-vellinum því Orri Sveinn Stefánsson skoraði það sem reyndist vera sigurmark Fylkis á 77. mínútu.

Það voru miðverðir Fylkis sem sáu um Víkinga í kvöld, en Óttar Magnús Karlsson lék ekki með gestunum; hann er á leið til Ítalíu. Fylkir er í fjórða sæti með 28 stig, en hefur til að mynda leikið þremur leikjum meira en KR sem er í fimmta sæti með 24 stig og tveimur leikjum meira en Stjarnan sm er í sjötta sæti með 24 stig. Víkingur er í tíunda sæti með 15 stig, sjö stigum frá fallsvæðinu en liðið á leik til góða á bæði Gróttu og Fjölni.

Fylkir 2 - 1 Víkingur R.
1-0 Ásgeir Eyþórsson ('27 )
1-1 Kristall Máni Ingason ('68 )
2-1 Orri Sveinn Stefánsson ('77 )
Lestu nánar um leikinn

Breiðablik 2 - 1 Stjarnan
0-1 Alex Þór Hauksson ('28 )
1-1 Viktor Karl Einarsson ('34 )
2-1 Thomas Mikkelsen ('63 , víti)
Lestu nánar um leikinn

Önnur úrslit í dag:
Pepsi Max-deildin: Valur færist nær titlinum
Athugasemdir
banner
banner