Eze og Olise gætu sameinast á ný - Veglegur launapakki Wirtz - De Bruyne á leið til Napoli
banner
   sun 25. maí 2025 14:45
Brynjar Ingi Erluson
Southampton staðfestir komu Will Still - Gerði þriggja ára samning
Mynd: EPA
Enska félagið Southampton staðfesti í dag komu Will Still en hann mun stýra liðinu næstu þrjú árin.

Englendingurinn hætti með Lens á dögunum og greindi frá því að hann væri á leið til Englands vegna persónulegra ástæðna.

Will Still er einn efnilegasti þjálfari Englendinga um þessar mundir en hann náði eftirtektarverðum árangri með Reims fyrir tveimur árum er liðið setti met með því að spila sautján leiki í röð án þess að tapa.

Hann tók við Lens síðasta sumar og stýrði liðinu í 8. sæti frönsku deildarinnar áður en hann sagði starfi sínu lausu.

Southampton hefur nú staðfest ráðningu á honum fyrir komandi tímabil en samningur hans gildir til 2028.

Will Still er ætlað að koma Southampton aftur upp í ensku úrvalsdeildina en liðið féll á dögunum með einn slakasta árangur í sögu deildarinnar.

Still er fæddur í Belgíu en á enska foreldra. Hann spilaði fótbolta fram að 17 ára aldri áður en hann sneri sér að þjálfun og tók við fyrsta meistaraflokks gigginu árið 2017 með Lierse áður en hann fór til Beerschot fjórum árum síðar.

Hann verður í stúkunni á St. Mary's í dag er Southampton tekur á móti Arsenal í síðasta úrvalsdeildarleik liðsins í bili.


Athugasemdir
banner