Vestri var undir gegn Stjörnunni í hálfleik í kvöld en vann á endanum 3-1 sigur. Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra og Daði Berg Jónsson, sem skoraði tvö mörk, ræddu við Fótbolta.net eftir leikinn. Vestramenn notuðu hálfleikinn til að fara vel yfir málin og endurstilla sig.
Lestu um leikinn: Vestri 3 - 1 Stjarnan
„Við byrjuðum leikinn gríðarlega illa og ég verð að taka það á mig. Spennustigið sem við komum með inn í leikinn var ekki gott. Ég reyndi að keyra það upp inn í klefa fyrir leik og fékk það í bakið," segir Davíð.
„Við fórum yfir hlutina í hálfleik og vildum mæta aggressífari í seinni hálfleik og vera hugrakkari á boltann, komast betur inn í leikinn."
Talað hefur verið um að það sé mikilvægt að skora fyrsta markið í leikjum gegn Vestra. Stjarnan gerði það í kvöld en tapaði samt.
„Þó þú komist yfir gegn Vestraliðinu þá er alltaf trú í okkur. Við erum bara fínt fótboltalið, hvort sem við lendum undir eða hvað það er," segir Davíð.
Morten Ohlsen Hansen var ekki með Vestra í kvöld.
„Hann er á fæðingardeildinni með konunni sinni, á von á sínu fyrsta barni. Við óskum honum alls hins besta. Við fáum hérna fullmótaðan föður til í að taka enn meiri ábyrgð þegar hann kemur til baka."
Í sjónvarpinu hér að ofan er einnig rætt við Daða Berg en í viðtali við Stöð 2 Sport eftir leik spurði Henry Birgir Gunnarsson hann að því hvað Davíð Smári hefði sagt í klefanum í hálfleik. „Það er eiginlega ekki við hæfi barna," sagði Daði og glotti út í annað áður.
Athugasemdir