Tveir spennandi leikmenn eru búnir að framlengja samninga sína við Fylki eftir að liðið féll úr Lengjudeildinni í fyrra.
Harpa Karen Antonsdóttir er búin að framlengja samning sinn við félagið um eitt ár og gildir hann út komandi keppnistímabil.
Harpa Karen er fædd 1999 og lék 16 leiki í deild og bikar í fyrra. Hún er uppalin hjá Val og skipti yfir til Fylkis fyrir síðasta tímabil eftir að hafa leikið fyrir KR, ÍH, Hauka og Aftureldingu.
„Við bindum miklar vonir við Hörpu á komandi tímabili. Við væntum þess að hún eigi eftir að leggja mikið af mörkum til liðsins á komandi tímabili að vinna til baka sæti okkar í Lengjudeildinni," segir meðal annars í tilkynningu frá Fylki.
Hin bráðefnilega Júlía Huld Birkisdóttir verður þá áfram hjá Fylki út keppnistímabilið en hún er fædd 2009 og er partur af U17 landsliði Íslands.
Júlía Huld hefur verið lykilleikmaður upp yngri flokkana hjá Fylki og hefur verið hluti af meistaraflokkshópi Fylkis síðustu tímabil. Hún fékk að spila sinn fyrsta leik með meistaraflokki í Reykjavíkurmótinu á dögunum.
„Við hjá Fylki erum afar stolt þegar uppaldir leikmenn halda tryggð við félagið, sýna metnað og eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að styðja liðið og ná sameiginlegum markmiðum á komandi keppnistímabili," segir meðal annars í tilkynningu frá Fylki.
Athugasemdir



