Fimm milljóna punda verðmiði - Robinson í stað Robertson - Chelsea og Villa skoða leikmann PSG
   sun 25. janúar 2026 18:16
Ívan Guðjón Baldursson
Howe svekktur: Getum ekki keypt í janúar
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Eddie Howe þjálfari Newcastle var svekktur eftir tap á heimavelli gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Newcastle var hættulegri aðilinn á heimavelli en tókst þrátt fyrir það ekki að skora í 0-2 tapi. Ýmis dauðafæri fóru forgörðum á meðan gestirnir nýttu sín færi vel til að sigra.

„Við klúðruðum alltof mörgum færum, boltinn vildi bara ekki fara í netið. Þetta er mjög erfitt tap fyrir okkur. Við vörðumst vel og þeir sköpuðu sér voðalega lítið en samt töpuðum við," sagði Howe eftir lokaflautið.

„Ég veit ekki hvort aðstæðurnar höfðu einhver áhrif, það var mikill vindur, en við megum ekki nota það sem afsökun. Það munaði litlu á liðunum en Villa hafði betur."

Howe var spurður hvort Newcastle vanti nýja leikmenn í janúarglugganum en hann telur svo ekki vera. Joelinton fór meiddur af velli í dag og bætist við meiðslalista sem inniheldur einnig Bruno Guimaraes, Fabian Schär, Tino Livramento, Jacob Murphy og Emil Krafth.

„Við verðum að finna lausnir með þeim leikmönnum sem eru til staðar. Við getum ekki keypt nýja leikmenn útaf fjármálareglunum. Þó að okkur myndi vanta nýja leikmenn þá gætum við ekki keypt þá.

„Við fáum ekki tækifæri til að breyta liðinu fyrr en næsta sumar. Eins og staðan er í dag snýst þetta um að ná því besta úr þeim leikmönnum sem eru til staðar.

„Mér fannst frammistaðan í dag ekki vera slæm nema varnarleikurinn í öðru markinu."


Newcastle krækti í Nick Woltemade, Jacob Ramsey, Anthony Elanga og Malick Thiaw eftir söluna á Alexander Isak síðasta sumar.
Athugasemdir
banner