Fimm milljóna punda verðmiði - Robinson í stað Robertson - Chelsea og Villa skoða leikmann PSG
   sun 25. janúar 2026 19:18
Ívan Guðjón Baldursson
Glódís hafði betur gegn Emilíu
Kvenaboltinn
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Glódís Perla Viggósdóttir var í byrjunarliðinu hjá stórveldi FC Bayern sem tók á móti RB Leipzig í efstu deild þýska boltans í dag.

Glódís og stöllur héldu hreinu og skópu þægilegan 3-0 sigur. Emilía Kiær Ásgeirsdóttir lék allan leikinn í sóknarlínu Leipzig.

Bayern er að eiga magnað tímabil og trónir í langefsta sæti þýsku deildarinnar með 43 stig eftir 15 umferðir. Liðið hefur unnið alla leiki sína á deildartímabilinu nema einn, sem lauk með jafntefli. Bæjarar eru með níu stiga forystu á Wolfsburg í öðru sætinu, sem á leik til góða.

Þetta var sjötti tapleikurinn í röð hjá Leipzig og er liðið aðeins með 13 stig eftir 15 umferðir. Emilía og stöllur eru þó fjórum stigum fyrir ofan fallsvæðið. Emilía hefur verið öflug að undanförnu og er búin að skora fjögur mörk í síðustu átta deildarleikjum.

Í hollenska boltanum spilaði hin bráðefnilega Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir seinni hálfleikinn í sigri PEC Zwolle á útivelli gegn NAC Breda.

Ragnheiður er fædd 2007 og hefur verið algjör lykilleikmaður upp yngri landslið Íslands.

Zwolle er í fimmta sæti hollensku deildarinnar með 24 stig eftir 12 umferðir, aðeins fimm stigum frá toppsætinu.

Amanda Jacobsen Andradóttir var þá ekki í hóp hjá FC Twente sem vann auðveldan sigur á útivelli gegn AZ Alkmaar. Twente er þremur stigum fyrir ofan Zwolle í toppbaráttunni og með leik til góða.

Að lokum gerði Rangers jafntefli í nágrannaslag við topplið Glasgow City í skoska boltanum en Telma Ívarsdóttir var ekki í hóp hjá Rangers. Rangers er í þriðja sæti, sjö stigum á eftir Glasgow.

Bayern 3 - 0 RB Leipzig
1-0 M. Tanikawa ('6, víti)
2-0 K. Spitzner ('67, sjálfsmark)
3-0 J. Damnjanovic ('69)

NAC Breda 1 - 2 PEC Zwolle

AZ Alkmaar 0 - 4 Twente

Rangers 1 - 1 Glasgow City

Athugasemdir
banner
banner